Minningarbrot um Jón Magnússon

Jón Magnússon
(16. jan. 1859 - 23. júní 1926)

Jón Magnússon fæddist í Múla í Aðaldal, var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1881 og hóf nám í lögfræði við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hann sneri heim 1883 og gerðist amtskrifari á Akureyri þar til hann fór í prestaskólann 1888. Jón sótti um að taka próf í guðfræði en fékk daufar undirtektir. Þá fór hann aftur til Kaupmannahafnar og tók próf í lögfræði 1891. Hann varð sýslumaður í Vestmannaeyjum 1891, landshöfðingaritari 1896, skrifstofustjóri í stjórnarráði 1904, bæjarfógeti í Reykjavík 1908, forsætis- og dómsmálaráðherra 1917 og svo aftur 1924 til æviloka.

Jón kvæntist árið 1892 Þóru Jónsdóttur Péturssonar háyfirdómara. Þau áttu ekki börn en kjördóttir þeirra var Þóra Guðmundsdóttir, systurdóttir Þóru, konu Jóns. Hún giftist Oddi Hermannssyni skrifstofustjóra en lézt í spönsku veikinni 1918.

„Jón var vel efnum búinn og bjó höfðinglega. Árið 1898 reisti hann sér hús við Þingholtsstræti 29 sem enn stendur og hýsir nú Stofnun Sigurðar Nordals. Þar bjuggu þau hjón til 1912 er þau fluttust að Hverfisgötu 21 í veglegt hús sem Jón hafði látið reisa. Það er nú í eigu Félags bókagerðarmanna. Þegar hann varð forsætisráðherra bjó hann þar áfram en lét þá einhverjum af samráðherrum sínum eftir Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Nokkuð gengu efni hans til þurrðar þegar á leið ævina, hann var ör á fé, hjálpfús og risna hans kostnaðarsöm en hana urðu embættismenn oft að bera að einhverju leyti sjálfir.“ (Forsætisráðherrar Íslands. 2004)Heimildir:
  • Forsætisráðherrar Íslands. Ráðherrar Íslands og forsætisráðherrar í 100 ár. 2004.  Ólafur Teitur Guðnason ritstýrði. Jón Magnússon, eftir Sigurð Líndal (bls. 113-114)  Bókaútgáfan Hólar, Akureyri.
  • Páll Eggert Ólason. 1950. Íslenskar æviskrár, III. bindi. (Bls. 224). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.