Minningarbrot um Pálma Pálsson

(21. nóv. 1857 - 21. júní 1920)

Pálmi varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1880, magister í ísl. fræðum frá háskólanum í Kaupmannahöfn 1885. Stundakennari í Menntaskólanum 1885-1895, jafnframt aðstoðarbókavörður landsbókasafnsins og forngripavörður. Hann lét af þeim störfum er hann varð fastur adjunkt í skólanum 1895. Yfirkennari þar frá 1913 til æviloka.
 

Stephan G. Stephansen

Í ritasafni skáldsins Stephans G. Stephanssonar má lesa um samskipti hans við Pálma Pálsson. Bréf og ritgerðir er IV. og síðasta bindi yfir rit skáldsins í óbundnu máli.

„Það er rétthermi, við Jón heitinn „Múli“ (Jónsson Hinrikssonar) vorum einn mánuð samtíðis hjá séra Jóni Austmann á Halldórsstöðum í Bárðardal, veturinn næstan áður en ég flutti vestur, og Halldór heitinn Jónsson, sem síðar varð bankagjaldkeri. Við þrír lásum saman upphaf til enskunáms. Samtímis okkur einnig var Friðrik heitinn Bergmann, síðar prestur vestan hafs, og Pálmi heitinn Pálsson, síðar menntaskólakennari. Þeir voru að „læra undir skóla“, eins og þar var þá nefnt.
    Mér fannst Jón skarpnæmastur okkar þriggja, einkum framan af. Ég dáðist að, hve fljótt honum lá nám í augum uppi, en virtist eins og úr því drægi nokkuð, er til lengra lék. Góður drengur og skemmtilegur. Urðum mestir mátar. Halldór var nokkru yngri en við Jón, og vandaðastur af okkur og vel næmur og gæddur fagurri söngrödd þá. Friðrik var glæsilegastur okkar allra og glaðværastur. Pálmi og ég vorum drumbslegastir, oftast og veit ég ei, hvor var meiri þumbari, líklega ég. T.d. við gerðum það bara af þægð, en af engu eftirlæti, ef við dröttu(ðu)m fram á gólf með vinnukonu í þetta, sem þær nefndu „dans“, en sem við vissum varla spor í.“ (bls. 98-99)

„Hann [Guttormur Vigfússon, prestlingur, síðast prestur á Stöð, 1917] hlýddi okkkur yfir og „merkti stílana“. Friðrik og Pálmi lásu landafræði, fornaldarsögu Melsteðs, byrjun til þýzku og latínu, gerðu stíla í dönsku og íslenzku. Ég man, að Guttormur hældi oft íslenzkustíl [um] Pálma, og að hann merkti þá oft hærri tölu en Friðriks. Hann fór líka yfir enskunám okkar hinna. Hann kunni enga ensku þá.“ (bls. 99)

„Pálma hitti ég í Rvík 1917. Hann bað mig að koma heim til sín. Það gerði ég eitt kveld ófyrirframboðað. Hann tók mér sem heimamanni sínum. Við röbbuðum á nótt fram, mest um Halldórsstaðaveru okkar. Hana hélt ég mig nokkuð vel muna. Á hinu furðaði mig: hann mundi vel líka og gat jafnvel minnt mig á. Að tvennu spurði ég hann, hví hann hefði aldrei ritað neitt að marki í sínu aðalviðfangi, íslenskunni, lét hann skilja, að mér þætti það áskortur. Hann sagðist aldrei hafa haft áhug á því. Hitt var: hvort þeirra færu ekki lengi mátar og rituðust á. Hann kvað ekki svo vera þá, en hefði lengið staðið, en loks slitnaði upp út úr trúmálum, á þeim árum, þegar séra Friðrik þótti þar íhaldssamastur.“ (bls. 99-100)


Halldór Kiljan Laxness

Í minningarsögum Halldórs Kiljan Laxness má lesa um kynni hans af Pálma Pálssyni, yfirkennara. Sjömeistarasagan er annað bindi af fjórum þar sem Halldór viðar að sér efni frá æskutíð sinni til tvítugs.

„Í lærdómsdeildinni í Reykjavík var ég svo heppinn að njóta samvista, þó altof stuttra, við hreintúngumanninn Pálma yfirkennara Pálsson og þá var hvítur fyrir hærum og kominn að fótum fram (ég man ekki betur en hann hafi látist árið eftir). Ég var dálítið smeykur við þennan virðulega öldúng og hann vissi áreiðanlega ekki hvað hann ætti að halda um mig, þó hann léti ekki á því bera; ég hlýt um þessar mundir að hafa verið dálítið skrýtinn án þess að taka eftir því sjálfur. En þess er að minnast af minni hálfu, að eftir að ég hafði skrifað stíl hjá honum um haustið, og alt til þess ég hvarf af þessum vettvángi, var hann mér vinhlýr og vildi í öllu minn hag þó samvistir yrðu helsti stuttar. Nú er frá því að segja að mér hafði enn á ævinni ekki tekist að skrifa venjulegan stíl einsog gerist og geingur í skólum heimsins. Væri mér ásamt námsfélögum mínum feingið sameiginlegt viðfángsefni, sama hversu ótvírætt það var og einfalt í eðli sínu, var mér ekki unt að reifa málið öðruvísi en búa til um það einhverskonar fábúlu í skemtistíl. Pálmi var manna fegurst mæltur, og fyrst verkefna sem hann gaf okkur um haustið átti að bera þetta einkennilega nafn: Sjálfstæðisglutra íslendínga. Þessi stíll hefur vísast átt að fjalla um þá atburði sem á Íslandi leiddu til þess á 13du öld að landið var framselt noregskonúngum. Að vanda mínum bjó ég til fáránlega lygasögu um málefnið.
    „Mig lángar að biðja yður gjöra svo vel að skreppa heim til mín í kvöld, ég þyrfti að spjalla svolítið við yður,“ sagði Pálmi Pálsson þegar hann var að fara yfir stílana; en hélt stílnum mínum eftir þegar aðrir fengu sinn aftur.
    Hann talaði leingi við mig um kvöldið heimahjá sér, og ég fékk kaffi. En ég held mér hafi ekki tekist betur í næsta stíl, og það hefur öldúngurinn fundið, og líklega skilist að koma mundi fyrir lítið að ragast í pilti sem líklega ekki var vondur í sér en skorti hæfileika til að skilja aga. Pálmi sagði mér í annað skipti að margur hefði orðið gott skáld þó hann hefði látið svo lítið að beygja sig undir reglu sem gilti í skólum – og ekki séð eftir því síðar; en hann bætti við, án þess að blikna, að þess væru manna dæmi að verið hefðu í skólum úngir menn, og einginn réð við þá og alt gerðu þeir rángt, en svo lauk að þeir urðu þjóðskáld. Og þó stílar mínir væru í meiralagi rutlkendir gaf þessi aldni höfðíngsmaður mér einkunn fyrir þá sem aunganveginn virtist samsvara verðleikum þeirra. Og hann var einn um það meðal kennara Mentaskólans að yrkja mig orði utan lögskipaðrar kenslustundar meðan ég var þar.“ (bls. 51-52)
 

Heimildir:
  • Halldór Kiljan Laxness. 1993, 2. útg. 2. prentun (1978, 1. útg.). Sjömeistarasagan (bls. 51-52). Vaka-Helgafell hf., Reykjavík
  • Páll Eggert Ólason. 1951. Íslenskar æviskrár, IV. bindi. (Bls. 150). Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.
  • Stephan G. Stephanson. 1948. Bréf og ritgerðir, IV. bindi. Umhleypingar (bls. 98-100). Ríkisprentsmiðjan Gutenberg, Reykjavík