kafli5

Myrkar aldir?

Siðbreyting
Um miðja 16. öld gaf Danakonungur út tilskipun þess efnis að allir þegnar danska ríkisins skyldu taka lútherstrú. Andstaða var gegn hinum nýja sið og hafði Jón Arason biskup á Hólum forystu um að Íslendingar neituðu að hlíta tilskipun konungs. En öll mótstaða var brotin á bak aftur er Jón Arason var hálshöggvinn árið 1550 í Skálholti, ásamt tveimur sonum sínum, og hefur sá atburður jafnan verið látinn marka upphaf siðbreytingartímans.

Harðæri og andans menn
Aðalatvinnuvegur Íslendinga var landbúnaður en fiskveiðar voru mikilvæg aukabúgrein. Ýmiss konar hömlur, m.a. á flutningi vinnufólks milli verstöðva og bæja, s.k. vistarband, höfðu slæm áhrif á þróun efnahags í landinu. Undir lok 18. aldar voru ýmsar ráðstafanir gerðar til úrbóta á högum þjóðarinnar, s.s. á sviði samgangna, landbúnaðar og póstþjónustu, en illa gekk.
    Náttúruhamfarir og sjúkdómar léku landsmenn grátt. Samkvæmt manntali 1703 voru Íslendingar þá um 50.000 talsins en þeim fækkaði um þriðjung (niður í 35.000) eftir bólusóttarfaraldur sem geisaði á árunum 1707 - 1709. Rúmlega hálfri öld síðar, 1783 - 1784, urðu mestu eldsumbrot og jarðskjálftar í sögu þjóðarinnar með miklu mann - og eignatjóni.
    Þrátt fyrir sára erfiðleika þjóðarinnar á þessum tíma eignaðist hún tvo af sínum mestu andans mönnum, þá sr. Hallgrím Pétursson og sr. Jón Vídalín. Hallgrímur er þekktur fyrir Passíusálma sína (1666). Í sálmunum, sem eru 50 talsins, er rakin píslarsaga Krists og hún túlkuð í anda kirkjulegrar táknfræði. Passíusálmarnir hafa verið gefnir út á prenti oftar en nokkur önnur íslensk bók og þýddir á fjölda tungumála. Jón biskup Vídalín var merkur mælskusnillingur og skrifaði m.a. húslestrabókina Vídalínspostillu (1718 - 1720), safn predikana fyrir alla sunnudaga og hátíðir ársins. Sú bók naut mikilla vinsælda allt fram á tuttugustu öldina og hefur öðlast varanlegan sess í íslenskri bókmenntasögu.
    Á þessum tíma kynntist þjóðin einnig prentverkinu, sem Jón biskup Arason lét flytja til landsins um 1530.

Kúgun Dana?
Sautjánda öldin hefur jafnan verið talin myrk öld í sögu landsins og Dönum kennt um. Óstjórn þeirra og kúgun ásamt rétttrúnaði, galdrafári og illu árferði hafi leitt til þeirra erfiðleika sem hrjáðu þjóðina á þessu tímabili. Nú á sér stað nokkur endurskoðun þessarar söguskoðunar og m.a. hefur verið bent á að Danir hafi stjórnað í samræmi við þær hugmyndir sem almennt voru lagðar til grundvallar ríkisstjórn í öðrum löndum á tímabilinu. Þeir hafi ekki stjórnað af mannvonskunni einni saman. Rétttrúnaðurinn átti einnig að hafa bundið menn á klafa og hamlað framförum en nú benda menn á að á 17. öld hafi Danir staðið framarlega á sviði vísinda og að Íslendingar sem stunduðu nám við Kaupmannahafnarháskóla hafi sannarlega notið góðs af því.