kafli5


Norrænn átrúnaður

Átrúnaði landnámsmanna á Íslandi má skipta í tvær megingreinar; goðatrú og vættatrú. Goð voru af tveimur ættum; æsir og vanir. Vættir voru landvættir og náttúruvættir. Þá voru þeir til sem trúðu aðeins á mátt sinn og megin og enn aðrir sem voru það sem kallað er blendnir í trú, eins og landnámsmaðurinn Helgi magri sem trúði bæði á Krist og Þór. Þá var nokkur hluti landnámsmanna kristinn.

Ásatrú
Hugtakið ásatrú er 19. aldar hugtak, notað um þann hluta norræns átrúnaðar sem felur í sér trú á æsi.
    Þeir landnámsmenn sem voru ásatrúar trúðu á marga guði, æsi, og virðast hafa rækt guðsdýrkun sína með blótum og helgileikjum.
    Goðin (æsir) bjuggu í Ásgarði og hafði þar hver sinn bústað.
    Freyr var frjósemisguð, Týr var ímynd hreysti og gaf mönnum sigur í orrustu. Loki hinn lævísi gerði ásum marga skráveifuna og á hann m.a. sök á dauða Baldurs, hins hvíta áss.
    En æðstur allra guða var Óðinn. Hann var öðru fremur guð skáldskaparins, en einnig guð galdurs og rúna. Auk þess var hann guð dauðra og orrustuguð. Tákn hans voru meðal annars hrafnar tveir og spjót. Hann var eineygður og hafði fórnað öðru auga sínu fyrir visku. Átrúnaður á hann er ekki talinn hafa verið mikill í hinu íslenska bændasamfélagi.
    Annar guð, Þór, sonur Óðins og Jarðar, virðist hafa verið mikið dýrkaður. Tákn hans er m.a. hamarinn Mjöllnir. Þór ók um himininn í reið sinni og voru tveir hafrar spenntir fyrir. Þá gekk á með þrumum og eldingum.
    Ásynjur voru ekki síður helgar en æsir. Þeirra æðst var Frigg. Hún tengdist hjúskap. Freyja var frjósemisgyðja, gjarnan ákölluð í barnsnauð. Að auki var fjöldi annarra ása og ásynja.
    Samkvæmt ásatrúnni eiga goðin í sífelldri baráttu við jötna sem búa í Jötunheimum. Til þeirra teljast ýmsar skepnur, eins og Miðgarðsormur, sem liggur í sjónum umhverfis jörðina og bítur í sporð sér, og Fenrisúlfur sem engu eirir. Goðunum tókst með brögðum að fjötra úlfinn og litlu munaði að Þór tækist að drepa Miðgarðsorm er hann reri eitt sinn til fiskjar.
    Jötnar sameinast að lokum í gríðarlegri herför gegn goðunum. Verður þá mikil orrusta svo að flest goðin falla og jötuninn Surtur brennir alla jörðina. Þetta eru ragnarök; örlög goðanna. En eftir heimsbrunann rís jörðin í annað sinn, iðjagræn úr sæ. Hin bestu goð og menn lifa þar áfram í fornum heimkynnum feðra sinna.
    Ritaðar heimildir um norræna goðafræði eru Eddukvæði og Snorra-Edda