ábúðarmikill

Lýsingarorðið ábúðarmikill merkir samkvæmt Íslenskri orðabók: 'alvörugefinn, íbygginn eða þungbúinn á svip, þykkleitur og dimmleitur í andliti'. Orðið er þó ekki eingöngu notað um menn, heldur getur það einnig átt við um veður og veðurútlit og merkir þá 'dimmur eða óveðurslegur'.

Dæmi um orðið í Ritmálssafni OH sýna þessa tvenns konar notkun en þar má líka sjá dæmi um að það sé haft um annað sem er traustbyggt eða mikilfenglegt:
 • var fálátur og ábúðarmikill svo varla fékkst orð af honum.
 • var þá þungbúið veður og ábúðarmikið og laust eldingum í fjöll.
 • þegar hann loks er kominn innum þúngar og ábúðarmiklar eikardyr að þessu allrahelgasta.
Orði ábúðarlegur er notað í svipaðri merkingu þótt það sé fátíðara, a.m.k. í nútímamáli, ef marka má Íslenska orðtíðnibók og textasafn OH þar sem það kemur ekki fyrir. Rétt eins og orðið ábúðarmikill hefur það bæði verið haft um fólk og um veður eða veðurútlit, eins og sjá má af dæmum í Ritmálssafni OH:
 • en þeir höfðu þá ekkert að segja eins og á stóð, flestir voru þeir ábúðarlegir undir brún en jafnframt hýrlegir í viðmóti.
 • loft var þykkt og ábúðarlegt og hrannaði loft.
Þriðja orðið af sama toga er ábúðarfullur. Merking þess er svipuð og hinna en í söfnum OH eru þó engin dæmi um að það sé haft um veður. Orðið er fyrst og fremst notað um fas eða svipbrigði fólks en einnig eru dæmi um að það sé haft í yfirfærðri merkingu:
 • þreifaði ábúðarfullur í barm sér og gaut augunum í kringum sig.
 • hershöfðinginn lyfti brúnum, ábúðarfullur á svip
 • Síðustu setninguna mælti hann ábúðarfullur og kvað fast að
 • uns kemur að Hamrahlíð sem gnæfir yfir okkur þungbrýn og ábúðarfull með hamrabeltum efra
Í talmálssafni Orðabókar Háskólans eru nokkrar umsagnir um þessi orð. Í mörgum þeirra segir að orðin lýsi þungbúnu veðri, að úrkoma vofi yfir eða að von sé á vondu veðri en flestir telja þau þó geta átt bæði við um menn og veður. Ef maður er þungbúinn, íbygginn, mikið niðri fyrir, reiðilegur eða fýlulegur má lýsa honum sem ábúðarfullum, ábúðarlegum eða ábúðarmiklum.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Reykjavík 2002.
 • Íslensk orðtíðnibók. Ritstjóri Jörgen Pind. Reykjavík 1991.
Ólöf Margrét Snorradóttir
september 2003