aðilar vinnumarkaðarins

Í lýðræðisþjóðfélögum þykir miklu varða að samið sé um kaup og kjör í frjálsum samningum þeirra sem greiða laun og þeirra sem fá laun fyrir vinnu sína. Hagsmunabarátta þessara tveggja hópa hefur löngum verið hörð og átakamikil en í seinni tíð hefur hún fengið stillilegra yfirbragð, minna fer fyrir harðvítugum átökum og að sama skapi meira fyrir samráði um ráðstafanir sem þykja vænlegar til árangurs fyrir báða aðila og þjóðfélagið í heild. Þetta kemur m.a. fram í hófstilltara orðfæri í opinberri umræðu um launa- og kjaramál. Til marks um þá áherslu sem lögð er á samráð og samábyrgð þeirra sem ráða ákvörðunum um kaup og kjör og sameiginlegt hlutverk þeirra er heitið aðilar vinnumarkaðarins sem nú heyrist æ oftar.

Innbyrðis afstaða og andstætt hlutverk hefur að vissu marki endurspeglast í heitum þeirra sem hér takast á. Þegar á 19. öld komu fram heiti sem vitna um þá afstöðu að þeir sem ráða menn til vinnu séu veitendur en þeir sem vinnuna fá séu þiggjendur. Frá þeim tíma eru heitin verkveitandi, atvinnuveitandi og vinnuveitandi. Það síðastnefnda lifir enn góðu lífi í málinu. En hér hafa einnig komið fram heiti þar sem vísað er til hlutverks og stöðu án þess að minnt sé á afstöðuna til þeirra sem ráðnir eru til vinnunnar. Lífseigasta heitið af því tagi er atvinnurekandi sem fram kemur í lok 19. aldar. Annað heiti frá sama tímabili er verkeigandi. Þá virðist orðið verkmeistari einnig hafa verið notað í þessari merkingu á 19. öld en það orð er annars mun eldra í málinu í merkingunni 'iðnmeistari'.

Stéttarvitund og tíðarandi hefur að vonum ekki síður mótað þau heiti sem vísa til þeirra sem ráðnir eru til vinnu. Þar hafa heitin vinnuþiggjandi og atvinnuþiggjandi, sem koma fram seint á 19. öld, vikið til hliðar. Það gildir einnig um orðið vinnuþegi, sem fram kemur ögn síðar. Önnur heiti vísa á hlutlausari hátt til starfs og stöðu. Orðið verknaðarmaður kemur fram um miðja 19. öld, og þeir sem annast launaða vinnu eru einnig nefndir vinnendur um og eftir aldamótin 1900. Á þeim tíma ber þó einna mest á þremur heitum sem öll eiga sér eldri sögu í málinu í almennari merkingu. Þetta eru heitin verkmaður, verkamaður og vinnumaður. Heitið verkamaður hefur orðið hinum heitunum yfirsterkara, enda styðst það við aðrar samsetningar með sama sniði, svo sem verkalýður og verkafólk.

Þetta orðafar og sá fjölbreytileiki sem þar birtist sýnir vel að afstaðan til þeirra hugtaka og fyrirbæra sem orðin tákna getur ráðið miklu um orðaval og orðmyndun og ýtt undir myndun samheita.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Johan Fritzner. Ordbog over det gamle norske sprog. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883-1896). Oslo 1954.