aðventa

Aðventa er annað heiti á jólaföstu. Hún hefst fjórða sunnudag fyrir jóladag og stendur því í fjórar vikur. Orðið aðventa hefur verið notað í málinu að minnsta kosti frá því á 14. öld og er tökuorð úr latínu adventus í merkingunni 'tilkoma'. Að baki liggur latneska sögnin advenio 'ég kem til' sem leidd er af latnesku sögninni venio 'ég kem' með forskeytinu ad-.

Framan af virðist orðið jólafasta hafa verið algengara í máli fólks ef marka má dæmi í fornmálsorðabókum og í Ritmálssafni Orðabókarinnar. Nafnið er dregið af því að í kaþólskum sið var fastað síðustu vikurnar fyrir jól og ekki etið kjöt. Í Grágás, hinni fornu lögbók Íslendinga, stendur t.d. ,,Jólaföstu skal fasta hvern dag og tvær nætur í viku nema messudagur taki föstu af" (1992:30) og á öðrum stað segir:

Jólaföstu eigum vér að halda. Vér skulum taka til annan dag viku að varna við kjötvi, þann er drottinsdagar eru þrír á millum og jóladags hins fyrsta. Þá skal eigi eta kjöt á þeirri stundu nema drottinsdaga og messudaga lögtekna. (1992:31)

Árni Björnsson hefur fjallað rækilega um aðventuna og jólaföstu í bókinni Saga daganna og vísast þangað um frekari fræðslu (1993:334). Þar kemur m.a. fram að aðventukransar sjást lítið fyrr en eftir síðari heimsstyrjöld og algengir urðu þeir ekki fyrr en milli 1960 og 1970.

Heimildir:

  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. 1992. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson og Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Mál og menning, Reykjavík.
  • Árni Björnsson. 1993. Saga daganna. Mál og menning, Reykjavík.
Guðrún Kvaran
desember 2003

Fleiri orðapistlar