æðiber

Merking og notkun
Æðiber eru svört og eitruð ber belladonnajurtarinnar sem notuð hefur verið til lækninga og sem fegrunarlyf í Evrópu frá fornu fari. Þessi jurt vex ekki villt á Íslandi og orðið virðist ekki algengt í eiginlegri merkingu. Þó eru dæmi um hana í ritmálssafni Orðabókarinnar.
 • Nú eru vægir skammtar af æðiberi og skollarót notaðir vegna vöðvaslakandi áhrifa sinna.
Þetta orð er aftur á móti alþekkt í sambandinu vera með æðiber í rassinum 'vera eirðarlaus, geta ekki verið kyrr', sem oft er haft um ókyrra krakka. Dæmi um notkun þess má finna í ritmálssafni Orðabókarinnar og því bregður sömuleiðis fyrir í gagnasafni Morgunblaðsins.
 • ekkert stoðar ef menn hafa æðiber í rassinum. (Ritmálssafn OH; úr Brekkukotsannál)
 • flestir, sem á annað borð gátu hreyft sig, virtust með æðiber í rassinum. (Mbl. 16.1.2000)
Þetta orðasamband er þó ekki síst notað í daglegu tali og t.d. finnast þó nokkur dæmi um það á bloggsíðum á netinu, sem standa yfirleitt nærri hversdagslegu talmáli að stíl og málsniði.

Dæmi úr ýmsum heimildum sýna dálítil tilbrigði í notkun orðasambandsins, t.d. kemur fyrir æðiber í botni, æðiber í boru o.fl. Orðið æðiber kemur líka fyrir eitt sér yfirfærðri merkingu eins og eftirfarandi dæmi úr bókinni Sóla, Sóla eftir Guðlaug Arason (1985) sýnir:
 • Hefur konan gleypt æðiber, eða hvað?

Aldur og uppruni
Heimildir benda til þess að orðið æðiber sé ekki mjög gamalt í íslensku. Orðið er ekki í gömlum orðabókum, t.d. ekki í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá því um 1920, og það birtist ekki í Íslenskri orðabók fyrr en með 2. útgáfu 1983.

Dæmi Orðabókar Háskólans eru öll frá 20. öld. Það elsta er úr Sölku Völku eftir Halldór Kiljan Laxness (1931-32) þar sem Steinþór spyr á einum stað hvort Salka sé "með æðiber í rassinum" þegar hún ætlar að hlaupa leiðar sinnar. Svipuð notkun kemur fram í því sem Velvakandi skrifar eftir páskana 1956:
 • ég vona að minnsta kosti, að hinir séu fleiri sem ekki eru svo grátt leiknir af þessu ólæknandi ,,æðiberi" nútímans, að þeir geti ekki fundið fullnægingu í sjálfum sér eða einhverju öðru en kvikmyndum, böllum og ralli þessa örfáu daga ársins, sem slíku er ekki til að dreifa. (Mbl. 12.4.1956)
Dæmi um orðið í eiginlegri merkingu, þ.e.a.s. um tiltekna tegund af berjum, eru aftur á móti yngri. Elstu dæmi Orðabókar Háskólans um hana eru frá árunum 1966-68 og í Íslenskri orðabók er hennar alls ekki getið, heldur einungis orðasambandsins vera með æðiber í rassi(num).

Fyrirmyndarinnar að íslenska orðinu æðiber hlýtur að vera að leita í dönsku því þar heitir belladonnajurtin og ber hennar galnebær (líka tossebær; galenbär á sænsku). Þótt ekki hafi fundist heimildir um yfirfærða merkingu danska orðsins né heldur um orðasamband sem líkist því íslenska, er ekki ólíklegt að það eigi líka rætur í dönsku, bæði vegna þess að æðiber vaxa ekki á Íslandi og vegna þess að orðasambandið og yfirfærða merkingin sem þar birtist virðist vera nokkru eldri en hin eiginlega merking orðsins.

Fyrri liður íslenska orðsins tengist nafnorðinu æði 'asi; vitfirring' og sögninni æða 'ólmast, flana, geysast áfram' svo og lýsingarorðinu óður og á merkingarlega skylt við orð eins og æðibuna 'eirðarlaus maður', æðibunugangur 'óðagot' og æðikollur 'bráður eða fljótfær maður'.

Heimildir
 • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Gagnasafn Morgunblaðsins.
 • Morgunblaðið hjá Landsbókasafni - Háskólabókasafni: http://www.timarit.is/.
 • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Menningarsjóður 1963. (2. útg. 1983)
 • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.
 • Nudansk ordbog. 12. útg. Ritstjórar: Chr. Becker-Christensen o.fl. Politiken 1984.
 • Ordbog over det danske sprog. VI. DSL 1924.
 • Svenska Akademiens ordbok (SAOB).