afdráttarnafn og önnur heiti

Sá siður er mjög algengur að stytta nöfn manna í gæluskyni, einkum innan fjölskyldu eða milli vina. Hann er gamall hérlendis og þekkist víða um heim. Algengasta heiti á slíkum nöfnum er gælunafn en einnig eru notuð heitin afdráttarnafn, stuttnefni, styttinafn eða styttingarnafn. Í Íslenskri orðabók (2002) eru flest þessara nafna skýrð á svipaðan hátt:

afdráttarnafn ‛nafn eða stuttnefni dregið af eiginnafni, t.d. Óli af Ólafur, Sigga af Sigríður.

gælunafn ‛nafn sem notað er í stað eiginnafns, stuttnefni eða án tengsla við eiginnafn > Gunna, Óli, Magga, Lilla, Diddú’.

stuttnefni ‛nafn eða gælunafn dregið af nafni, notað einkum í hópi ættingja, vina og kunningja (t.d. Siggi, Sigga fyrir Sigurður, Sigríður), afdráttarnafn.

styttinafn ‛stuttnefni’.

Styttingarnafn er ekki fletta í Íslenskri orðabók. Gælunafn virðist hafa víðasta merkingu samkvæmt orðabókinni.

Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans (arnastofnun.is) eru heimildir um öll heitin nema styttinafn:

  • Finna, …hún hét svo, það var ekki afdráttarnafn, … hún gerði Sel taumvanan.
  • Er algengt … að kalla ekki börn og unglinga skírnarnöfnum sínum blátt áfram, heldur gælunöfnum, sem dregin eru af skírnarnöfnum.
  • en aldrei hefir verið algengt á Íslandi að skíra menn stuttnefnum.
  • En styttingarnafn hans frá barnæsku var Jói.

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á elstu íslensku gælunöfnunum. Þeirra er sjaldan getið í heimildum og því erfitt um vik að hafa uppi á þeim. Sænski fræðimaðurinn Assar Janzén (1948:208) gat sér þess til að ósamsett nöfn eins og Grímur, Ketill, Gísl, Steinn, Ása og fleiri hafi upphaflega ef til vill verið styttingar á samsettum nöfnum með þessum liðum en erfitt er að færa sönnur á það.

Í Ólafs sögu Tryggvasonar í Heimskringlu (1941:266) er sagt frá því að Ólafur vildi eitt sinn leyna því hver hann væri og ,,hafði hann eigi meira af nafni sínu en kallaði sik Óla og kvaðzk vera gerzkr.“

Jón Ólafsson úr Grunnavík tók saman lista yfir stuttnefni á 18. öld sem varðveittur er í handritinu AM 432 fol., 339 r. á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Á listanum eru 124 nöfn sem langflest koma kunnuglega fyrir sjónir. Annar stuttnefnalisti eftir Jón er í sama handriti á blöðunum 341 r. og v. og 342 r. Flest nafnanna eru hin sömu en þó eru þar 47 nöfn sem ekki voru á hinum listanum.

Spurt var um öll orðin yfir stytt eða gælandi nöfn í þættinum Íslenskt mál fyrir alllöngu og kom mörgum saman um að stuttnefni væri dregið af nafni persónu. Sunnlenskur heimildarmaður sagði um stuttnefni: ,, og var það oftast liprara en nafnið sjálft, gert til að mýkja sér nafnið í munni“. Sami heimildarmaður gat þess að gælunöfn hefðu verið gefin þeim sem fólki þótti vænt um, oft ungum, óskírðum börnum, og hefði ekki verið til þess ætlast að gælunöfnin festust við börnin þótt oft hefði sú orðið raunin. Dæmi voru tekin af nöfnum eins og Brói og Systa. Þingeyskur heimildarmaður sagði slík nöfn mynduð með ,,tæpitunguaðferðinni“ og nefndi þau einnig gælunöfn. Af þeim heimildum sem bárust virtist afdráttur eða afdráttarnafn algengast á Austurlandi.

Nú verður æ algengara að gefa börnum nöfn sem upphaflega voru styttingar eða notuð í gæluskyni. Þau fara þá á mannanafnaskrá og eru eftir það talin eiginnöfn.

  • Heimildir:
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Heimskringla. 1941. I. bindi. Bjarni Aðalbjarnarson gaf úr. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Reykjavík, Edda.
  • Janzén, Assar (útg.). 1948. Personnamn. Nordisk kultur VII. Stockholm–Oslo–København, H. Aschehoug & Co.s Forlag.

Guðrún Kvaran
mars 2011