afmæli

Orðið afmæli er útbreitt í íslensku nútímamáli. Fólk heldur árlega upp á sitt eigið afmæli og sinna nánustu og reglulega er afmælum stofnana, félaga, sögulegra viðburða og löngu látinna stórmenna fagnað opinberlega, t.d. 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins og 350 ára afmæli Árna Magnússonar. Því gæti komið á óvart að orðið kemur tiltölulega seint fram í íslensku og svo skemmtilega vill til að eitt elsta dæmið sem vitað er um er einmitt í skrifum Árna Magnússonar sem segir svo um Ara fróða:

Nú hafa hans aldar menn ekki reiknað annos [þ.e. ár] nema completos [þ.e. liðin að fullu], so hann hefur ei heitið 10 vetra fyrr en eftir afmæli sitt (diem natalem) anno 1077.

Halldór Halldórsson birti þetta dæmi í grein um orðið afmæli frá 1958 en það er jafnframt elsta dæmi um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

Orðið afmæli er skylt sögninni mæla 'taka mál‘ og orðum leiddum af henni, sögninni afmæla 'afmarka, mæla út‘ og samsvarandi lýsingarorði, afmældur. Það vísar því til afmælds tíma miðað við fæðingu einstaklings eða upphaf stofnunar eða félags, þ.e.a.s. þess tíma þegar ákveðnum aldri er náð. Þannig á maður fyrst afmæli þegar fullt ár er liðið frá fæðingardegi. Auk þess er orðið haft um veislu eða samkomu sem haldin er í tilefni dagsins:

  • Þau héldu upp á tveggja ára afmæli dóttur sinnar í gær
  • Þau buðu vinum og ættingjum í afmælið

Fjölda dæma um báðar þessar merkingar má finna í Íslensku textasafni.

Í mörgum nágrannamálum íslensku svara orð sem höfð eru um afmæli formlega til íslenska orðsins fæðingardagur: fødselsdag í dönsku, birthday í ensku, Geburtstag í þýsku o.s.frv. Slík orð eru eðlis síns vegna yfirleitt aðeins höfð um fólk. Í þessum málum eru því notuð önnur orð um afmæli stofnana, félaga, atburða og þess háttar: jubileum í dönsku, anniversary í ensku, Jubiläum í þýsku o.s.frv. og þau eru líka höfð um önnur tímamót í lífi einstaklings en þau sem miðast við fæðingu hans. Sérstaða íslenska orðsins afmæli birtist meðal annars í því að það má hafa um hvers kyns tímamót í lífi fólks eins og orðin brúðkaupsafmæli, stúdentsafmæli og fermingarafmæli vitna um. Íslenska orðið fæðingardagur er aftur á móti fyrst og fremst haft um daginn sem fólk fæddist en stundum einnig um þá dagsetningu:

  • 17. júní er fæðingardagur Jóns Sigurðssonar

Þótt nafnorðið afmæli sé skylt sögninni (af)mæla eru tengslin tæplega mjög skýr í huga málnotenda almennt og eðlileg framburðarmynd þess er /ammæli/, þ.e.a.s. án nokkurs f-hljóðs. Hún endurspeglast í nafninu á þekktu lagi Sykurmolanna: Ammæli. Þessum rithætti bregður fyrir víðar innan um hina venjulegu ritmynd orðsins og virðist a.m.k. stundum vera hafður sem stílbragð og vísun til lagsins.

Heimildir

Nóvember 2013