alþjóð

Orðið alþjóð hefur eftir orðhlutanna hljóðan í sér fólgna merkinguna ´þjóðin öll´ og þannig má vel skilja það í venjulegu notkunarsamhengi. Dæmi um notkun orðsins í fornu máli sýna að það hefur að fornu haft áþekka merkingu og orðið alþýða og tengist því m.a. í orðasambandinu alþjóð manna sem á sér hliðstæðu í sambandinu alþýða manna. Í Orðabók Árnanefndar um fornmálið fá þessi tvö orð samhljóða skýringu: ´alle mennesker, folk, befolkning´.

Í riti sínu, Ævisögur orða, gerir Halldór Halldórsson prófessor grein fyrir merkingu orðsins í fornum kveðskapardæmum, m.a. í eftirfarandi erindi úr Sonatorreki Egils Skallagrímssonar, þar sem skáldið lýsir vansæld sinni, sem öllum hljóti að vera sýnileg:

þvít alþjóð
fyr augum verðr
gamals þegns
gengileysi.

Þótt nærtækt geti verið að lýsa merkingu orðsins alþjóð með orðinu almenningur (sbr. skýringuna við orðið í Íslenskri orðabók, 3. útg. 2002: ,,öll þjóðin, almenningur“) leiðir notkun þess í ljós mikilvæg einkenni sem greina það frá öðrum merkingarskyldum orðum. Skýrasta einkennið sem fram kemur í textasafni Orðabókarinnar er að þeir, sem orðið vísar til, verða vitni að eða hafa vitneskju um eitthvað sem er fyrir hendi, gerist eða fer fram:
 • átti að vera trúnaðarmál, en var þegar á vitorði alþjóðar
 • það getur verið erfitt að sitja fyrir framan alþjóð og svara spurningum
 • hefur staðið berskjaldaður frammi fyrir alþjóð í þrjá áratugi
 • því að Guð kristninnar er karlkyns eins og alþjóð veit
 • dæmi um þetta birtist alþjóð einn nýársdag
 • hafði vakið á sér athygli alþjóðar fyrir snarræði við að bjarga barni
 • kröfðust þess að ráðherra upplýsti alþjóð um sérréttindi S.Í.S.
Þetta einkenni endurspeglast í því orðafari sem orðið alþjóð á mesta samleið með: vita, þekkja, vera kunnugt um, birta, sýna, sýna fram á, vekja athygli, taka eftir, veita eftirtekt. Dæmið úr Egils sögu, sem áðan var getið, samræmist vel þessari málnotkun.

Annað einkenni, sem reyndar verður ekki beinlínis staðfest af því dæmasafni sem nú er tiltækt, er hversu sterklega orðið alþjóð er bundið íslenskum aðstæðum og samfélagi. Í ritmálssafni Orðabókarinnar má að vísu finna dæmi þar sem orðið vísar til annarra þjóða, t.d. í sambandinu alþjóð Dana, en notkun þess í nútímamáli felur jafnan í sér hugmynd um íslensku þjóðina sem eins konar sameinaðan hóp, sem einstaklingurinn stendur frammi fyrir, oft einn og berskjaldaður.

Í fyrrnefndum athugasemdum sínum um orðið alþjóð vekur Halldór Halldórsson athygli á formlegum tengslum orðsins við forliðinn alþjóða-, sem hann telur ekki vera til marks um að fleirtölumyndin alþjóðir hafi ,,verið til í daglegu máli íslenzku“, þótt tvö dæmi komi fram um fleirtölunotkun orðsins í seðlasafni Orðabókarinnar. Um þessa ályktun verður varla efast en svo að öllu sé til skila haldið skal að lokum tilgreint dæmi um fleirtölunotkun orðsins alþjóð sem ekki er getið í umfjöllun Halldórs. Það er að finna í kvæðinu Frelsarinn eftir Jóhannes Birkiland, erfikvæði um sálkönnuðinn Sigmund Freud (sjá Þorsteinn Antonsson 1985: 227). Upphaf kvæðisins er þannig:

Í fordóma myrkur, í fáviskulægð,
kom Freud með ljósið og daginn.
Sjá, alþjóðum veitti hann af sinni gnægð.
Og öllum hann bjó í haginn. ---
Ég syng honum sólksinsbraginn!

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa. Edda, Reykjavík.
 • Ordbog over det norrøne prosasprog. 1995. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København.
 • Þorsteinn Antonsson 1985. Utangarðsskáldið Jóhannes Birkiland. Skírnir 159: 225-258.
 • Halldór Halldórsson 1986. Ævisögur orða. Alþýðlegur fróðleikur um íslenzk orð og orðtök. Almenna bókafélagið, Reykjavík.