ánægja

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Orðið ánægja er merkingarlega nátengt orðinu gleði, eins og m.a. kemur fram í áberandi samfylgd þeirra í mæltu og rituðu máli: gleði og ánægja, ánægja og gleði. Nafnorðið ánægja á sér samsvörun í lýsingarorðinu ánægður, en þar er upphaflega um að ræða lýsingarhátt sagnarinnar ánægja, sem sýnilega er elsta orðið af þessum stofni og kemur fyrst fram í lok 14. aldar (sbr. ONP). Orðin eru rótskyld orðunum nógur, nægur og nægja, og um það vitnar notkun og merking sagnarinnar , eins og sjá má af dæmum í ritmálssafni Orðabókarinnar. Sögnin virðist að mestu horfin úr málinu seint á 18. öld en notkun nafnorðsins og lýsingarorðsins hefur hins vegar styrkst og merking þeirra hefur þróast og ummyndast frá þeim tíma er þeirra verður fyrst vart í ritheimildum, seint á 17. öld.

Úr Íslensku orðaneti
(smellið á myndina til þess að stækka hana)

Íslenskt orðanet: Orðið "ánægja"Það er til marks um náið samband orðanna ánægja og gleði að þau koma fram sem skýringarorð hvort við annað í Íslenskri orðabók. Ekki er þar með sagt að orðin séu fullkomin samheiti, og þegar vel er að gáð virðist hvort orðið um sig hafa sín sérstöku notkunareinkenni. Um það vitna notkunarsambönd þeirra í Íslensku orðaneti þar sem þau tengja þau saman fjölda merkingarskyldra orða í hliðskipuðum orðasamböndum. Meðfylgjandi mynd sýnir hluta slíkra sambanda sem þar koma fram með orðinu ánægja.

Á grundvelli dæma í orðanetinu má með vissri einföldun gera þann greinarmun að orðið ánægja feli gjarna í sér gleðitilfinningu sem vakin er af upplifun og reynslu en orðið gleði tengist fremur hughrifum líðandi stundar. Í samræmi við það er ánægja oft í för með orðum sem fela í sér varanlegt ástand: ánægja og farsæld, búsæld og ánægja, velgengni og ánægja, velmegun og ánægja; eindrægni og ánægja, samlyndi og ánægja, samstaða og ánægja. Orðið gleði stendur hins vegar nær ýmsum orðum sem lúta að tilfinningatjáningu: gleði og gáski, glens og gleði, gleði og glettni, gleði og hlátrasköll, gleði og kátína.

Leiðin að merkingarsviðinu ánægja, þar sem orðasambönd eru í fyrirrúmi, liggur um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „vera ánægður“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér " vera ánægður". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "vera glaður", "<mér> líður <vel>", "hafa velþóknun á <honum, henni> " o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.


Heimildir
• Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
• Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri Mörður Árnason. 3. útgáfa. Edda, Reykjavík.
• ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København 1995.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
júní 2010