árangur

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Að baki verkum og viðleitni okkar mannanna býr jafnan meðvituð eða ómeðvituð krafa um árangur. Árangur er því sannarlega mikilvægt hugtak, og það endurspeglast m.a. í margvíslegu orðafari sem lýtur að því hvernig til tekst, hvort árangur næst eða ekki. Hér verður svipast um á þessu orðasviði en fyrst er rétt að staldra aðeins við sjálft meginorðið, árangur.

Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er upprunaleg merking orðsins árangur 'árferði, ársafurðir´, og um það vitna samstofna orð í öðrum norrænum málum, åring í nýnorsku og dönsku og äring í sænsku. Gera má ráð fyrir að upprunamyndin sé samsetta orðið árgangur en það orð kemur fyrir í fornu máli í merkingunni 'ársafurðir´ (sbr. einnig ONP). Merkingarleg ummyndun orðsins til nútímahorfs hefur átt sér stað á síðari öldum og er reyndar ekki vel sýnileg fyrr en á 18. öld.

Í nútímamáli eru fleirtölunotkun orðsins settar verulegar skorður, og fleirtölumyndir virðast helst eiga við þegar vísað er til (mælanlegs) árangurs og frammistöðu í keppni. Þær hömlur virðast þó löngum hafa verið minni því við athugun á textum í stafrænu bókasafni á Tímarit.is koma fram fjölmörg dæmi (einkum frá miðbiki 20. aldar) þar sem fleirtölunotkunin er frjálsari, eins og sjá má ef leitað er dæma um myndirnar árangrar, árangra og áröngrum.

Leiðin að merkingarsviðinu árangur í Íslensku orðaneti, þar sem orðasambönd eru í fyrirrúmi, liggur um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „ná árangri“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér " ná árangri". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "<þessu> vindur fram", "vera fylginn sér", "hafa áhrif" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Gagnstætt merkingarsvið, sem kenna má við árangursleysi, sameinar sömuleiðis fjölda orðasambanda. Hér er tekið dæmi af flettunni „ná <litlum, engum> árangri“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér " ná <litlum, engum> árangri". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð".
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "gera mistök", "<tækið; námið> er gagnslaust", "vera í vandræðum" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Heimildir
• Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík 1989.
• ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København 1995.
Tímarit.is. 2000-2010. Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn: www.timarit.is.

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
júlí 2010