ástæða

Orðið ástæða hefur skýra merkingu í nútímamáli, sem reyna má að lýsa með eftirfarandi skilgreiningu: aðstæður, atburður eða verknaður sem veldur því eða gefur tilefni til þess að eitthvað á sér stað

Myndun orðsins og merking tengist sýnilega sögninni standa og samböndum hennar með forsetningunni á, sbr. orðalag eins og hvernig stendur á þessu, það stendur þannig á þessu.

Það er athyglisvert að hvorki nafnorðið sjálft né sú merking sagnarsambandsins sem því tengist virðist eiga sér langa sögu í málinu. Orðið ástæða kemur fram í dæmum frá lokum 16. aldar, eins og sjá má í ritmálssafni Orðabókarinnar, en þá og lengi fram eftir virðist merkingin nokkuð önnur en í nútímamáli. Reyndar er merkingin ekki alltaf sem skýrust en almenn merking orðsins á elsta skeiði virðist liggja nærri merkingu orðsins grundvöllur:
 • Astæda og Grunduøllur soddann Truar eru Ordenn Christi. (þýðing á trúarriti frá lokum 16. aldar)
Í dæmum ritmálssafnsins frá 18. og 19. öld er skýrasta merkingin hins vegar 'röksemd/röksemdir':
 • Gat Brynjólfur þá með sínum ástæðum og argumentis svo krept að D(octor) Brochmann [ [...]], að ei fékk rekið þau til baka. (Biskupasögur Jóns Halldórssonar, frá upphafi 18. aldar)
 • þar sem hann hrekur ástæður Jóns fyrir tilveru álfanna. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar, frá miðri 19. öld)
 • að fallast með ástæðum á skoðun hans eða hrekja hana með ástæðum. (Þjóðólfur, frá lokum 19. aldar)
Þessi merking kemur skýrt fram í þýðingu Jóns Ólafssonar úr Grunnavík á Nikulási Klím eftir Holberg frá miðri 18. öld, þar sem orðin ástæða og röksemd standa hlið við hlið í eins konar samheitasambandi:
 • það feck eg með eingvo móte vitað, með hverium röksemdum og ástæðum hann hefðe veikt hinn gamla setníng.
 • at þvínga hanns þvermóðsku með þeim sterkustu röksemdum og ástæðum.
Nútímamerking orðsins kemur naumast fram í beinum notkunardæmum fyrr en nokkuð er liðið á 19. öldina. Um hana vitnar m.a. dæmi í Hugsunarfræði Eiríks Briem frá 1897, þar sem minnst er á sambandið milli ástæðu og afleiðingar.

Annars konar vitnisburður um merkingu orðsins á 19. öld er notkun þess sem þýðingarorðs í Orðabók Gunnlaugs Oddssonar frá árinu 1819. Þar kemur það fyrir sem samheiti við röksemdir (sem þýðing á orðinu data) og í öðru samhengi sem samheiti við grundvöllur (við flettiorðið fundament). Þriðja samheitasambandið kemur svo fram í skýringu við sögnina motivere og vísar til merkingar orðsins í nútímamáli: færa til ástæður og orsakir. Orðin ástæða og orsök eiga einnig samleið meðal skýringarorða við orðið raison í orðabók Gunnlaugs.

Samband sagnarinnar standa við forsetninguna á hefur svo mótað aðra merkingu, sem bundin er við fleirtölumynd orðsins, ástæður:
 • Til hafa verið konur á öllum öldum og í ólíkum ástæðum. (Fjallkonan, frá lokum 19. aldar)
 • var byggingaefnið hið sama í báðum löndum og allar ástæður líkar. (Skírnir, frá 3. áratug 20. aldar)
Þessi merking orðsins, sem komin er til sögunnar á 19. öld og á sér skýringuna 'kringumstæður, aðstæður' í Íslenskri orðabók, tengist sýnilega samböndum eins og það stendur þannig á og það stendur vel/illa á fyrir e-m. Önnur rót þessarar merkingar er lýsingarorðsmyndin ástatt, sem dæmi eru um í ritmálssafni Orðabókarinnar allt frá því um 1700:
 • af þvi þad er so astadt, ad vor Naattura er so skadlega og hryggelega raangsnuen og forspillt.
 • Kunne so ad vera aastatt fyrer oss / ad vier ecke gietum Erfidad.
Þótt orðið ástæða komi ekki fram í fornu máli er þar að finna eins konar undanfara þess af sama stofni með skyldri merkingu. Það er orðið ástaða, sem getið er bæði í orðabók Fritzners og orðabók Árnanefndar. Í þeirri síðarnefndu er aðalmerkingin skýrð með dönsku orðunum grund, påstand, argumentation. Þar er m.a. þetta dæmi úr handriti Tómasar sögu erkibiskups frá því um 1400:
 • (hann) segir ... at fyrir þaa grein hefir hann eynga logliga aastodu til motkasta
Hér sem víðar birtast skörp skil milli orðanotkunar í fornu máli og nýju en jafnframt má greina tengsl og samfellu í orðmyndun og merkingu.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883-1896). Med et bind tillegg og rettelser redigert av Didrik Arup Seip og Trygve Knudsen. Oslo 1954-1972.
 • Ordbog over det norrøne prosasprog. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København 1995.
 • Íslensk orðabók. Ritstjóri Mörður Árnason. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Reykjavík 2002.
 • Gunnlaugur Oddsson. Orðabók sem inniheldur flest fágæt, framandi og vandskilin orð er verða fyrir í dönskum bókum. Ný útgáfa með íslenskri orðaskrá. Jón Hilmar Jónsson sá um útgáfuna ásamt Þórdísi Úlfarsdóttur. Orðabók Háskólans 1991.