ástarblettur og fénögl

Flestir kannast við hvíta bletti í nöglum. Þessir blettir eru oftast kallaðir ástarblettir og fylgir þeim sú trú að fjöldi blettanna segi til um fjölda þeirra kærasta sem sá eignast á lífsleiðinni sem blettina hefur.

Blettirnir hafa fleiri nöfn. Sumir kalla þá ástarslettur en aðrir ástir og er þá talað um að ástir séu í nöglunum. Enn aðrir tala um ástarneglur. Stundum er sagt að blettirnir boði fjöllyndi í ástamálum. Þá er talað um lauslætisbletti eða lauslætisslettur í nöglum. Einnig þekkist að hvítu blettirnir séu kallaðir lausaástir en hálfmánarnir upp við naglrætur fastaástir.

Það þykir vita á gott að hafa hálfmána á nöglum. Slík nögl er kölluð fénögl og er talið að þeir menn verði auðsælir sem marga hálfmána hafa. Önnur nöfn á hálfmánanum eru auðsrák og fjárbugur og vísa bæði nöfnin til hins sama.