ástríða

Nafnorðið ástríða er augljóslega sett saman af orðstofni sagnarinnar stríða og forsetningunni á. Orðið er ekki að finna í orðabókum um fornmálið, hvorki í orðabók Fritzners né í upphafsbindi nýrrar orðabókar Árnanefndar í Kaupmannahöfn. Í orðabók Fritzners eru allmörg dæmi um sagnarsambandið stríða á, og er þá alltaf um persónubundið frumlag að ræða, þ.e. einhver stríðir á einhvern, þar sem tengslin við nafnorðið stríð eru augljós:
  • þó at þú, vondr þjófr og djöfull, stríðir á mik meðr eitrfullum smíðartólum. (Maríu saga)
  • þat er várr vili, at vér stríðim allir samt á heiðingja. (Stjórn)
Nafnorðið ástríða er komið til sögunnar í heimildum (trúarlegum textum) frá 16. öld, bæði í bundnu og óbundnu máli. Í Sálmabók Guðbrands biskups er talað um heims ástríðu stranga en annars er ástríðan einkum og sér í lagi af völdum óhreinna anda og djöfulsins sjálfs framan af:
  • Vardueit oss fyrer allre astrijdu ohreinna Anda. (þýðing á trúarriti frá 1607)
  • Né um náðina beðið, að hann forðaði þér frá þvílíkri djöfulsins ástríðu. (heimild frá því um 1700)
Sú merking orðsins sem nú er ráðandi virðist ekki koma fram fyrr en á 18. öld og verður naumast greinileg fyrr en á 19. öld. Í Fjallkonunni (árið 1886) er sagt að tortryggni manns sé orðin að sjúklegri ástríðu, og til skýringar bætt við orðinu mani í svigum. Í Kristilegri siðfræði Helga Hálfdánarsonar er því haldið fram að fýsnin geti orðið að girnd og girndin að ástríðu, og sama samband girndar og ástríðu er rakið í Almennri sálarfræði Ágústs H. Bjarnasonar. Í tilgreindum notkunardæmum um orðið í orðabók Jóns Þorkelssonar, Supplement til islandske Ordbøger frá 1897, á það samleið með orðunum geðshræring og tilfinningar.

Það sem hér hefur verið rakið um notkun orðsins ástríða sýnir athyglisverða notkunar- og merkingarbreytingu. Á eldra skeiði er notkunin sterklega bundin gerandanum, þeim sem stríðir á (einhvern), og tengslin við merkingu sagnarsambandsins stríða á eru býsna skýr. Á yngra skeiði (og í nútímamáli) varðar merkingin þolandann, þann sem strítt er á og þá líðan og tilfinningu sem af því leiðir, og tengslin við merkingu sagnarsambandsins hafa dofnað.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Fritzner, Johan. Ordbog over Det gamle norske Sprog. Nytt uforandret opptrykk av 2. utgave (1883-1896). Med et bind tillegg og rettelser redigert av Didrik Arup Seip og Trygve Knudsen. Oslo 1954-1972.
  • Ordbog over det norrøne prosasprog. 1: a-bam. Redigeret af Helle Degnbol, Bent Chr. Jacobsen, Eva Rode, Christopher Sanders, Þorbjörg Helgadóttir. Udgivet af Den arnamagnæanske kommission. København 1995.
  • Jón Þorkelsson. Supplement til islandske Ordbøger. Tredje Samling. Reykjavík 1890-1897.