atburður og viðburður

Orðin atburður og viðburður merkja oft það sama en eru þó notuð á mismunandi hátt. Í grófum dráttum má segja að atburður merki eitthvert einstakt atvik, svo sem sá atburður átti sér stað… atburðurinn hafði mikil áhrif á heimafólk… en viðburður sé frekar notað um eitthvað sem ber sjaldan við og þykir jafnvel til tíðinda, svo sem hljómleikarnir voru sögulegur viðburður… það er viðburður ef hann sýnir sig.

Í Orðastað (2001) segir m.a. um orðið atburður:

(<merkilegur>) atburður á/átti sér stað […] Það rekur hver (merkis-)atburðurinn annan, vera vitni að atburðinum, […] <óvæntur, óvenjulegur, einstæður, undarlegur, dularfullur, merkilegur, minnisstæður […] voveiflegur> atburður.

Þar segir einnig m.a. um orðið  viðburður:

(þetta er) <merkilegur, sögulegur, heimssögulegur> viðburður; árviss viðburður [...] það er (alveg) viðburður að-S það er viðburður að hann heimsæki dóttur sína.

Atburður er atvik eða eitthvað sem atvikast en getur þó merkt fleira, til dæmis atferli sem og dugnað eða atorku. Í Íslenskri orðabók (2000), segir um atburð:

at|burður KK
1 viðburður, atvik
merkilegur atburður
nánari atburðir voru þessir
atburðarás
atburðaflækja
með atburð fornt/úrelt ef til vill
2 tilviljun
það gerðist af atburði
atburðir FT
1 atferli, látæði
sást það fljótt á átburðum hans að hann mundi verða góður smiður
2 dugnaður, atorka, framtak
hafa atburði í sér til e-s
atburðalítill

Nokkur dæmi um orðið atburður úr Ritmálssafni Orðabókarinnar:
 • *Lausnaranz lærisueinar / þa lyta atburd þann, / og Iuda athafnir einar.
 • og hvolfdi [:: skipi] þegar [ [...]] fimm var þar bjargað fyrir snarræði annars skips, er sigldu nærri atburðinum.
 • Ef atburðir sem lýst er í skáldsögu eru taldir til efnis skáldsögu, þá er niðurröðun þeirra, byggingin, hluti formsins.
 • Næsta ár fékk hann með sömu atburðum og úr sömu görðum ekki nema 1/2 tunnu.
 • Þessir hinir breiðfirzku menn stóðu alls ekki hinum innfæddu að baki um aflabrögð eða atburði.
Viðburður er eitthvað sem ber við, getur verið tíðindi eða fyrirbæri, jafnvel tilburðir. Í Íslenskri orðabók (2000) segir um orðið viðburður:

 við|burður KK
1
• atburður, e-ð sem ber við
• fréttir, tíðindi
2
• e-ð sem sjaldan gerist
það er viðburður
3
• fyrirbæri, fyrirburður
viðburðir FT
• viðleitni, tilburðir
hafa viðburði til e-s
viðburðalítill tíðinda- eða atburðalítill
(um fólk) framtaks- eða athafnalítill

Nokkur dæmi úr Ritmálssafni Orðabókarinnar um orðið viðburður:
 • ok var sem hverr vidburdrinn æti upp annann.
 • annar viðburður, er gerðist þarna í austurbygð.
 • Það [::kirkjuferðin] var viðburður í vetrarfásinninu.
 • sem munnmælin hafi öllu heldur gert sér hina seinni viðburði að yrkisefni.
 • Málaferli eiga sér varla stað, það má teljast viðburður ef manni er stefnt fyrir sáttanefnd.
 • að steinninn dettur, [ [...]] kalla menn í eðlisfræðinni náttúruviðburð
 • (Naturphænomen), eða einungis viðburð (Phænomen).
 • og sum af þilskipunum fiski svo lítid ad ei sé gagn eda sómi í vidburdum þeirra.
 • hann snautaði burt, tuddi, og sýndi ekki meiri viðburði til þess að granda okkur.

Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðabók, tölvuútgáfa. Edda - miðlun og útgáfa. 2000.
 • Jón Hilmar Jónsson. Orðastaður. JPV útgáfa, Reykjavík. 2001.
Ólöf Margrét Snorradóttir
júní 2002