ávísun

Orðið ávísun hefur tvenns konar merkingu. Annars vegar merkir það 'tilvísun, ábending' en hins vegar er um að ræða 'sérprentað blað, ígildi peninga'.

Fyrri merkingin er eldri og á Orðabók Háskólans um hana dæmi í ritmálssafni frá 17. öld.
 • kom honum til handa bréfleg ávísun ... sira Páls Björnssonar ... hvar inni hann segir sig med sanni spurt hafa.
 • at gefa bændum skírari ávísun um þessar fyrstu og einfölduztu grunn-maskínur.
 • féck bréf og ávísun um þad ... ad Hóla-skóli skyldi afleggjast.
Ekki er alveg ljóst af dæmum Orðabókarinnar hvenær farið er að nota ávísanir í þeirri gerð sem gjaldgengar eru í bönkum núna. Frá miðri 19. öld er þetta dæmi í ritmálssafni:
 • sendi mér ávísun upp á 200 spesíur.
Þarna er að öllum líkindum átt við ávísun í svipaðri merkingu og notuð er nú, þ.e. einhvers konar bréflega tilvísun á peninga. Önnur dæmi frá svipuðum tíma sýna að farið var að nota ávísanir sem gjaldmiðil:
 • sendi ég yður ávísun hér með upp á 35 rd.
 • ávísun upp á bankana eðr önnur verzlanhús.
 • Það mun síðar verða ákveðið ... með hvaða skilyrðum peningum verðr víxlað gegn ávísunum.
Í lok 19. aldar fer að bera á orðinu ávísanabók en þar er átt við hefti með ávísunum. Þar er um að ræða þýðingu úr ensku checkbook:
 • gefur hann [þ.e. bankinn] sjálfr viðskiftamanni ávísana-bók (check-book).
 • mjög margir menn ganga aldrei svo út, að þeir hafi ekki banka ávísana-bók sína í vasanum.
Orðið ávísanaeyðublað er sömuleiðis frá lokum 19. aldar en ávísanahefti virðist heldur yngra eða frá því snemma á 20. öld.

Samhliða orðinu ávísun voru í notkun orðin tékki og tékkávísun. Um síðara orðið er t.d. þetta dæmi í ritmálssafni:
 • Tjekk-ávísun skal svo gjöra, að hún til greini: nafnið tjekk-ávísun eða check með berum orðum í sjálfum textanum ...;
Tékkanum fylgja síðan ýmsar samsetningar eins og tékkareikningur, tékkhefti og tékkbók.

Heimildir
 • Ritmálsskrá OH
 • Íslensk orðabók. 2002. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.