baldýra

Merking
Sögnin baldýra vísar til aðferðar við að sauma út. Saumað er með tveimur þráðum, gylltum eða silfruðum vírþræði sem strekktur er yfir útskorið mynstur á réttunni og tvinna sem festir vírþráðinn niður frá röngunni. Stundum er einnig notað mislitt silki á réttunni. Mynstrið er oftast e.k. blómamynstur og eru blöðin þá skorin úr pergamenti eða öðru stífu efni sem lagt er ofan á undirlagið. Það er oftast flauel sem liggur á stífu undirlagi sem oft er einnig pergament. Á milli blaðanna eru lagðar snúrur, oftast úr vírþræði, ásamt pallíettum og kantalíum.

Baldýring er þekkt á íslenskum kvenbúningum a.m.k. frá 18. öld. Hún er höfð á upphlutsborðum, kraga faldbúnings og treyjubörmum faldbúnings og skautbúnings og á bryddingu á treyjuermum skautbúningsins. Þá munu baldýruð belti og peysufataslifsi einnig hafa tíðkast nokkuð. Baldýring var ekki einhöfð á kvenbúninga, hún var t.d. einnig notuð á kraga og uppslög á einkennisbúningum embættismanna og enn er hún notuð í kirkjulist, t.d. á messuskrúða.

Uppruni og aldur
Tökuorð úr dönsku baldyre en þangað er orðið komið úr frönsku bordure ‘borði’. Upphaflega mun orðið, bæði í dönsku og íslensku, hafa verið notað um ýmiss konar útsaum en í dönsku færðist notkunin yfir á eina ákveðna gerð af hvítsaumi, e.k. flatsaum. Í íslensku þrengdist merkingin líka en átti við þá gerð af útsaumi sem lýst er í merkingarskýringunni hér að ofan. Sá útsaumur var einnig tíðkaður víða um Evrópu en gekk í Danmörku undir heitinu guldsøm.

Elsta dæmi um baldýra í ritmálssafni Orðabókarinnar eru frá 17. öld en um baldera og baldéra eru dæmi frá því eftir miðja 18. öld. Orð sem dregin eru af sögninni í ritmálssafni Orðabókarinnar eru lýsingarorðin baldýraður (17m) og balderaður (20m) og nafnorðin baldýran (Orðabók Grunnavíkur-Jóns 1734-1779), baldýrun (18s), baldýring (19s) og baldering (19s).

Dæmi
 • vppa huørn [þ.e. klæðafald] ad miøg konstlega og merkelega voru baldyrud edur aasaumud þau tiju Guds Bodord. (Húspostilla Gísla Þorlákssonar 1667-1670)
 • at Baldyra, à Danico at Baldyre, flores diversi coloris acu pingere. et baldyradr, adj. inde. (Orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík 1734-1779)
 • *og baldérað þar með belti um líf, / beisivikt. (Stefán Ólafsson. Kvæði I, 17ms)
 • Við uppdrætti þá [þ.e. á faldbúninga], sem ætlaðir eru til að baldýra, er bezt að þræða teiknaða pappírinn vandlega á borðann og sauma pergamentsrósirnar ofaná. (Guðrún Gísladóttir. Um íslenzkan faldbúning. 1878)
Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Seðlasafn úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík.
 • Elsa E. Guðjónsson. Íslenzkir þjóðbúningar kvenna. Bókaútgáfa Menningarsjóðs. Reykjavík, 1969.
 • Fríður Ólafsdóttir. Upphlutur á 20. öld. Bókaútgáfan Óðinn hf. Reykjavík, 1994.
 • Íslensk orðabók - tölvuútgáfa. Edda hf. Reykjavík, 2000.
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Orðabók Háskólans. Reykjavík, 1989.
 • Ordbog over det danske sprog. Gyldendal. København, 1919.
 • Ordbog over det danske sprog. Supplement. Gyldendal. København, 1992.
 • Salomonsens Konversations leksikon. A/S J. H. Schultz Forlagsboghandel. København, 1922.