berbeyla

Orðið berbeyla er eitt af mörgum orðum sem fyrst og fremst virðast hafa verið notuð í talmáli. Það finnst ekki í Íslenskri orðabók (2002:115) en þar er beyla sagt merkja ‘herðakistill, kryppa’ og ‘(notað sem gæluorð við barn) líkami, kroppur‘. Í Íslenskri orðsifjabók Ásgeirs Blöndal Magnússonar er berbeyla fletta og merkingin sögð ‘nakinn barnskroppur’ og vísað er annars vegar í lýsingarorðið ber og hins vegar í nafnorðið beyla ‘herðakistill, kryppa; (böggulslegur) kroppur’ (1989:53). Eitt dæmi er úr Safni til iðnsögu Íslendinga I (1987:29) um berbeylu í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og er merkingin önnur:

Síðan voru stofnarnir bútaðir niður í svona 6 tommu búta. Það grennsta var haft sér. Það var kallað berbeilur.

Í talmálssafni stofnunarinnar var eitt gamalt dæmi um merkinguna ‘kalkvistur’.

Í þættinum Íslenskt mál í Ríkisútvarpinu var spurt um orðið fyrir aldarfjórðungi og fengust nokkur góð svör og hliðarmyndirnar berbeina, berbengla, berbeinla og berbein. Í Árnessýslu virtist orðið berbeyla einkum notað um kalvið og úr Stafholtstungum barst skýringin: ,,berbeylur voru mjóar greinar sem sniðnar voru af við kolagerð. Var þeim raðað í botninn á kolagryfjunni, kveikt í þeim og látið lifna vel áður en viðarkurlið var sett ofan á. Uppblásnar rætur voru einnig kallaðar berbeylur.“ Svipuð lýsing er í bók Kristleifs Þorsteinssonar Úr byggðum Borgarfjarðar en hann notar þó orðið berbeinglur. Af Skeiðum er heimild um að myndirnar beyla, berbeyla og berbeina séu notaðar um þann sem er magur á búkinn. Á Ströndum var berbeina notað um kalkvist og styðst það einnig við heimildir úr prentuðum bókum. Berbeinla er notað um kalkvist á Vesturlandi. Hvorugkynsorðið berbein var fyrir norðan notað um beinin úr þorskhausnum þegar búið var að taka fiskinn af þeim. Voru berbein stundum gefin skepnum ef hart var í ári. Líklegast er að orðin sem notuð eru í kalkvistsmerkingunni megi rekja til berbeinla sem aftur hafi blandast orðinu beyla um barnslíkama.

Júní 2009

Guðrún Kvaran