bíslag

Orðið bíslag er tökuorð úr dönsku frá 19. öld og er haft um skúr eða viðbyggingu við hús, sérstaklega útbygginu yfir útidyr. Í talmálssafni Orðabókarinnar er einnig gefin skýringin ,,lítið skýli með hallandi þaki``.

Orðið bislag er í dönsku fengið úr miðlágþýsku bîslach sem merkir 'það sem slegið er utan á'.

Orðið er lítið notað nú en það er þekkt um allt land og er sérstaklega haft um viðbyggingar við timburhús. Dæmi í talmálssafni Orðabókarinnar virðast mörg hver vera frá Vestfjörðum og frá Seyðisfirði.

Í talmálssafni Orðabókarinnar finnst orðasambandið að gadda bíslagið á nokkrum seðlum og þar eru m.a. skýringarnar `að loka bænum, setja renniloku fyrir skúrhurðina' eða `að klinka forskyggninu, að hespa hurðina aftur'.

Í ritmálssafni Orðabókarinnar eru nokkur dæmi um orðið, m.a. úr bókum Halldórs Laxness. Í Innansveitarkroniku (1970:124) er t.d. þetta dæmi: ,,Í bænum var bíslag með kössum; og kokkhús; og þar var olíumaskína nokkuð sótug og af henni steinolíulykt". Þá er heimili Ólafs Kárasonar Ljósvíkings lýst svo: ,,Hátt í brekku þar sem sér yfir húsþökin klúkir timburkofi með skúrþaki og bíslagi (1992b II:7).

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók, Orðabók Háskólans, Reykjavík.
  • Guðrún Kvaran. 2002. Auðnæm er ill danska. Fyrirlestur haldinn í málstofu um málfræði föstudaginn 22. mars 2002, Háskóla Íslands.
  • Seðlasöfn Orðabókar Háskólans.