blók

Merking og notkun
Kvenkynsorðið blók (fleirtala blækur) er notað í tvenns konar merkingu:
  1. undirmaður, lágt settur starfsmaður
  2. náungi, ræfill
Í báðum tilvikum hefur orðið á sér niðrandi blæ eins og dæmi úr Ritmálssafni OH sýna.
  • Þá fann einn vestfirzkur aflajötunn það þjóðráð að láta eina blókina klifra upp í reiða.
  • *enda var hann bara blók / á botnvörpungnum Unni.
  • Ég er bara blók ! það eru blækur, sem hafa ekki nema 250 þúsund krónur í árskaup.
  • Þú ert meiri helvítis blókin og eddjótið.
  • Strákurinn spratt á fætur steytti hnefanna og sagði: Heldurðu að ég sé hræddur við þig, helvítis blókin þín.
Samsett orð
Í Ritmálssafni Orðabókarinnar eru allnokkur samsett orð með blók sem síðari lið: skrifstofublók, bílstjórablók , gjaldkerablók, íhaldsblók, bolsablók o.fl. Samsetningarnar hafa svipaða merkingu og sama stílblæ og ósamsetta orðið blók. Fyrri liður samsettu orðanna gegnir fyrst og fremst því hlutverki að tengja þann sem orðið vísar til við tiltekna starfsstétt eða hóp.

Aldur og uppruni
Elstu dæmi um orðið í söfnum Orðabókarinnar eru frá því snemma á 20. öld, nánar tiltekið frá 1927 og 1928. Það er tökuorð úr ensku þótt það verði engan veginn ráðið af framburði þess, ritmynd eða beygingu, jafnvel ekki í elstu dæmunum. Að baki býr enska orðið bloke 'maður, náungi' og talið er að íslenska orðið eigi rætur í máli togarasjómanna.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók.
Ásta Svavarsdóttir
september 2002