brauðfætur

Merking og notkun
Orðið er oftast notað í fleirtölu: brauðfætur, þótt eintölunni bregði fyrir. Samkvæmt Íslenskri orðabók er merkingin tvíþætt:
 1. linur ótraustur fótur
 2. völt og ótrygg undirstaða
Er síðari merkingin augljóslega leidd af hinni fyrri. Dæmi um mismunandi merkingu orðsins má sjá í söfnum OH og víðar:
 • Brauð-fætur kallast á þeim, sem er haframlega fótfúinn, sérílagi í glímu. (Norðanmál.) (Ritmálssafn OH)
 • ,,Óskapar brauðfætur eru á þér, maður" var sagt um þá sem voru dettnir (Talmálssafn OH)
 • Hraðinn í leiknum var ótrúlegur, ég náði ekki andanum og var með hálfgerða brauðfætur. (Mbl 17.2.2002)
 • ef það [þe: félagið] færðist minna í fang og gengi ekki mestmegnis ef ei eingöngu á lánsfótum, sem hafa reynzt helzt ofmörgum systkinum þess brauðfætr. (Ritmálssafn OH)
 • ærið miklar eru skuldir kaupfélags ykkar, sér í lagi þegar búskapurinn stendur hjá öllum þorra bænda á slíkum brauðfótum sem hann stendur. (Ritmálssafn OH)
 • Ég sé nú ekki að olíufélögin standi á þeim brauðfótum fjárhagslega að þetta fyrirkomulag sé nauðsynlegt. (Mbl 14.9.2003)
Algengast er að orðið sé notað í sambandinu (vera eða standa) á brauðfótum um eitthvað sem ótraust og sjást dæmi þeirrar notkunar hér á undan.


Uppruni og aldur
Í söfnum Orðabókar Háskólans eru allmörg dæmi um orðið brauðfótur (flt. brauðfætur). Þau elstu eru frá því um og eftir miðja 19. öld og bendir það til þess að orðið sé tiltölulega ungt í málinu. Uppruni þess er óviss en engin bein samsvörun orðsins eða orðasambanda með því hefur fundist í grannmálunum. Söfn orðabókarinnar geyma hins vegar fáein dæmi um skyld orð, bæði nafnorðið brauðlöpp (flt. brauðlappir) og lýsingarorðið brauðfættur í svipaðri merkingu.


Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Talmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Gagnasafn Morgunblaðsins
 • Íslensk orðabók. Reykjavík: Edda 2002.