dægravilla

Orðið dægravilla er notað um það að sofa um daga og vaka um nætur. Engin dæmi fundust um það í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans en nokkur í Talmálssafni stofnunarinnar. Þær heimildir eru úr Árnessýslu. Önnur mynd er dægurvilla og fannst ekki nema ein heimild um hana úr Borgarfirði í talmálssafni. Algengari eru lýsingarorðin dægravilltur og dægurvilltur. Virðist dægravilltur einkum notað á Suður- og Vesturlandi en heimildir um dægurvilltur eru úr öllum landsfjórðungum. Ber öllum saman um að orðin séu notuð um þá sem hafa snúið sólarhringnum við. Á það einkum við um gamalt fólk og börn, t.d. ,,Litli drengurinn sefur illa á nóttinni en mikið á daginn. Hann er orðinn dægra-/dægurvilltur.“ ,,Gamli maðurinn var á rápi alla nóttina. Hann er orðinn dægra-/dægurvilltur.“

Náskylt þessum orðum er sögnin að dægra. Hún er notuð í tvenns konar merkingu. Annars vegar um það að liggja í rúminu allan daginn eða langt fram á dag. Hins vegar um mjólk sem látin er standa einn sólarhring (eða fleiri) til að kalla fram ákveðnar breytingar. Elstu dæmi í ritmálssafni eru frá fyrri hluta 20. aldar:

Skyr er höggvið upp úr sáum með skarexi, borið inn að eldi og þítt eða inn í baðstofu og dægrað þar eða tvídægrað.

er dæmi um síðari merkinguna frá Guðmundi skáldi Friðjónssyni.

ungdómurinn doffírar sig og fer í dans á helgum, [ [...]] í það fer allur þrótturinn, þess á milli dægrar það.

er dæmi um fyrri merkinguna úr þýðingu Halldórs Laxness á Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar.

Allmörg dæmi voru um sögnina í talmálssafninu og bar öllum saman um að fyrri merkingin ætti við þá sem liggja heilbrigðir í rúminu allan daginn, eru rúmlatir eins og sumir heimildarmenn nefndu.

Heimildir:

Guðrún Kvaran
Maí 2011