dauðyfli

Í Íslenskri orðabók, þriðju útgáfu, aukinni og endurbættri (Rvík 2002), er orðið dauðyfli tilgreint í tveimur merkingum. Í fyrsta lagi merkir það ‘hræ' en í öðru lagi ‘letiblóð, rola, skussi’. Við fyrri merkinguna, ‘hræ’, er merkið † sem táknar í þeirri orðabók að um sé að ræða „fornt eða úrelt mál“.

Orðið dauðyfli kemur einum tvisvar sinnum fyrir í fornu máli og merkir þar ‘hræ’. Það á sér nána hliðstæðu í gotneska lýsingarorðinu dauþubleis sem merkir ‘feigur’ en orðmyndun hins íslenska orðs er annars ekki fullljós (sjá Íslenska orðsifjabók, bls. 108).

Í fórum Árna Magnússonar (1663–1730) eru nokkur orðasöfn með orðum og talsháttum sem honum hafa þótt eftirtektarverð og sum bundin landshlutum eða héruðum. Þar nefnir hann m.a. orðið dauðyfli í merkingunni ‘hræ’ og getur þess fyrst að Jón Vídalín (1666–1720) noti það í þeirri merkingu í postillu sinni (1718–20) og segir síðan að orðið sé almennt mál á Fljótsdalshéraði í merkingunni ‘hræ’.

Fyrir nokkrum áratugum var spurt um þetta orð í útvarpsþáttunum „Íslenskt mál“ og notkun þess og merking rædd nokkuð ítarlega. Þá kom glöggt í ljós að ‘hræ’-merkingin var vel þekkt í mæltu máli. Einkum og sér í lagi var þessi merking kunn á Austurlandi. Hún var beinlínis algeng í Múlasýslunum báðum, allt norðan úr Vopnafirði, um Fljótsdalshérað og Firði. Þá var hún nokkuð þekkt í Skaftafellssýslum báðum og dæmi um hana bárust úr Rangárvallasýslu og jafnvel utan úr Ölfusi. Í Þingeyjarsýslum var þessi notkun orðsins miklu sjaldgæfari en í Múlasýslum en þekktist þó. Engin dæmi bárust hins vegar úr Eyjafirði, Skagafirði eða Húnaþingi. Þessari merkingu brá fyrir hjá stöku heimildarmanni í Dalasýslu og Austur-Barðastrandarsýslu en engin dæmi af Snæfellsnesi, hvorki norðan- né sunnanverðu, né heldur úr Mýra- eða Borgarfjarðarsýslu.

Þess skal geta að ‘daufingja- og rolu’-merkingin var alkunn hringinn í kringum landið.

Hræ’-merkingin kemur fyrir á bókum allt frá byrjun 17. aldar og fram á síðustu áratugi. En greinilegt er að ‘daufingja- og rolu’-merkingin sækir á þegar líða fer á 19. öld (sjá Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans).

Hér á undan kom fram að fæst dæmi um ‘hræ’-merkinguna voru af Vesturlandi. Árni Magnússon var fæddur og uppalinn í Dalasýslu. Er það hugsanlegt að hann hafi vakið athygli á þessari merkingu af því að hann hafi ekki þekkt hana af heimaslóðum sínum?

Heimildir
  • Árni Magnússons Levned og Skrifter. Andet Bind. Khavn 1930.
  • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík, Edda 2002.
  • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon.
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.