dilkur

Algengt er að tala um að eitthvað dragi dilk á eftir sér, einkum hafi það slæmar afleiðingar. Einnig er talað um að draga í dilka, oft notað um að flokka fólk, t.d. eftir skoðunum. Uppruni þessara orðatiltækja er flestum ljós.

Orðið dilkur er til í nokkrum merkingum eins og kunnugt er. Í orðabók Menningarsjóðs (OM) eru tilgreindar þessar merkingar undir orðinu dilkur: 'dilklamb, lamb (folald, kálfur) sem sýgur móður sína, lamb á hausti: [sbr.] dilkakjöt'. Einnig er þar merkingin `afgirtur hluti (hólf) fjárréttar'. Síðan eru greind orðatiltækin hér í upphafi.

Í gamla landbúnaðarþjóðfélaginu tíðkaðist að stía sundur ám og lömbum skömmu eftir sauðburð á vorin. Lömbin voru rekin á fjall en ærnar hafðar í gæslu í heimahögum og mjólkaðar um sumarið heima. Að sínu leyti gilti hið sama um ungviði nautgripa og hrossa, kálfar gengu ekki undir kúnum né folöld undir merum nema takmarkaðan tíma. Fyrir kom þó að ungviði, t.d. lömb, gengu af einhverjum ástæðum allt sumarið undir mæðrum sínum og nærðust þannig á móðurmjólkinni. Þá var lambið nefnt dilkur og ærin dilksuga, þ.e. sogin af dilk. Ef kálfur eða folald gengu af einhverjum ástæðum lengur en venja var undir móðurinni voru þau sömuleiðis nefnd dilkar og foreldrið t.d. folaldssuga. Þegar kindakjöt varð markaðsvara og lambakjötið vinsælt var hætt að færa lömbin frá ánum og þau gengu þá undir mæðrunum allt sumarið og komu dilkar heim að hausti, miklu vænni en móðurlausu lömbin höfðu komið úr sumarhögunum áður.

Orðið dilkur er gamalt í málinu, kemur þegar fyrir að fornu og merkir ungviði búfjár sem gengur með móður sinni og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða afkvæmi sauðfjár, nautgripa, hrossa eða svína. Orðið á sér samsvaranir í grannmálunum og rót þess, di-, er ævaforn og geymir merkinguna `sjúga', sbr. dönsku die og sænsku dia `vera á brjósti'. Í sænskum mállýskum og fornensku er til orðstofninn del- og merkir `speni, geirvarta'. Viðskeytið -k- í orðinu dilkur er algengt í dýranöfnum (sjá Ásgeir Bl. Magnússon 1989, bls. xviii og 114).

Merkingin `afgirtur hluti (hólf) fjárréttar' í orðinu dilkur er dregin af líkingu við á sem leiðir dilk, afstöðu lítils réttarhólfs til stærri hluta réttarinnar (Ásgeir Bl. Magnússon 1989, bls. 114). Orðatiltækið að draga dilk á eftir sér er sömuleiðis líking við móður og lamb. Orðasambandið að draga í dilka er hins vegar fengið úr réttunum, féð er flokkað, dregið úr fjöldanum, almenningi, í einstök hólf tiltekinna eigenda eða bæja.

Heimildir
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Johan Fritzner. Ordbog over det gamle norske Sprog. Første Bind. Christiania 1886.
  • OM: Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Ritstjóri Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.