djús

Aldur og uppruni
Orðið djús 'ávaxtasafi' á sér ekki ýkja langa sögu í íslensku. Elsta dæmið sem fundist hefur á prenti er úr Morgunblaðinu 1961 og orðið er líka í fyrstu útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1963 sem bendir til að það hafi þá þegar verið orðið nokkuð algengt í daglegu tali. Lengi framan af virðist það sjaldgæft í ritmáli, t.d. eru fá dæmi í ritmálssafni Orðabókar Háskólans, en af gagnasafni Morgunblaðsins að dæma verður það smám saman algengara, t.d. fundust þar einungis 15 dæmi á árinu 1994 en 55 dæmi tíu árum síðar. Þó nokkur dæmi eru líka í textasafni Orðabókarinnar.

Djús er tökuorð og á rætur að rekja til enska orðsins juice 'safi, vökvi'. Eins og mörg ung tökuorð er íslenska orðið sprottið af framburðarmynd enska orðsins en ekki ritmyndinni. Í ensku hefst orðið á s.k. tvæhljóði sem ekki er til í íslensku en líkist hljóðasambandinu /dj-/ sem yfirleitt kemur í stað þess (sbr. líka orð eins og djass); ritháttur orðsins í íslensku tekur svo mið af framburðinum og stendur býsna fjarri ensku ritmyndinni. Því má segja að orðið hafi verið lagað að íslenskum framburði og stafsetningu.

Aðlögun orðsins nær líka til beygingarinnar því það fær yfirleitt venjulegar íslenskar beygingarendingar. Hins vegar er kyn þess nokkuð á reiki; sumir nota það sem hvorugkynsorð, djúsið (sbr. orð eins og hús), en aðrir hafa það í karlkyni, djúsinn (sbr. ís), eins og dæmin sýna:
 • Drekka morgunkaffið úr skærlituðum bollum [...] djúsið úr gulu könnunni og draga fram brauðið úr rauða brauðboxinu. (Morgunblaðið 5.10.04)
 • Þeir myndu væntanlega nýtast við safapökkun ef framleiddur verður djús eða eitthvað því um líkt. (Morgunblaðið 16.12.94)
 • Djúsið er ekki alltaf betra í Hollywood! [...] Djúsinn góði er innfluttur frá Bandaríkjunum og auglýstur undir heitinu Hollywood-kúrinn. (Morgunblaðið 27.10.04)
Síðasta dæmið er forvitnilegt því sá sem samdi fyrirsögnina hefur orðið í hvorugkyni, djúsið, en höfundur greinarinnar notar aftur á móti karlkyn í öllum textanum, djúsinn o.v. Í mörgum tilvikum er þó ómögulegt að sjá hvers kyns orðið er því bæði karl- og hvorugkynsorð af þessu tagi eru endingarlaus í sumum algengum beygingarmyndum:
 • Hins vegar hafa svaladrykkir, gos, djús og ís rokselst. (Morgunblaðið 9.7.94)
 • Svo fengum við okkur djús til að skola munninn og héldum áfram. (Textasafn OH)
Það eru væntanlega þessi líkindi sumra karl- og hvorugkynsorða sem valda því að kyn tökuorðsins er á reiki því miðað við ytri einkenni gæti það fallið undir hvort kynið sem er. Reyndar er það ekki dæmalaust að íslensk orð séu notuð í fleiri en einu kyni, einkum þannig að munur er á kyni milli landshluta, t.d. er skúr (um rigningu) bæði til í karlkyni (flt. skúrar) og kvenkyni (flt. skúrir) og sykur í bæði karlkyni (sbr. akur) og hvorugkyni (sbr. myrkur).

Merking og notkun
Eins og títt er um tökuorð hefur íslenska orðið djús talsvert þrengri merkingu en enska orðið juice 'safi, vökvi' sem það er sprottið af. Í nýjustu útgáfu Íslenskrar orðabókar (2002) er merkingin greind í þrennt:
1. vatnsþynnt ávaxtaþykkni
2. ávaxtasafi
3. áfengi, áfengisbland

Önnur merkingin er merkt sem "orð [...] sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar" og sú þriðja er merkt sem "slangur". Það er því einungis fyrsta merkingin sem talin er almenn og orðið því gjaldgengt í þeirri merkingu hvar og hvenær sem er. Hins vegar er erfitt að ráða það af dæmunum sem tiltæk er, t.d. í gagnasafni Morgunblaðsins og textasafni Orðabókarinnar, hvort fyrsti eða annar merkingarliðurinn eigi þar við. Slangurmerkingin er aftur á móti auðþekkt þar sem hún kemur fyrir; hún hefur leitt af sér sögnina djúsa 'drekka áfengi':
 • Nauðsynlegt sé því að huga að lifnaðarháttunum, og þá ekki eingöngu djammi og djúsi. (Morgunblaðið 8.8.04)
 • mjög algengt að unglingarnir fari í bíó klukkan níu og djúsi þar áður en þeir haldi í bæinn. (Textasafn OH)

Heimildir
 • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
 • Textasafn Orðabókar Háskólans.
 • Gagnasafn Morgunblaðsins.
 • Orðabók um slangur, slettur, bannorð og annað utangarðsmál. Ritstjórar: Mörður Árnason o.fl. Svart á hvítu 1982.
 • Íslensk orðabók. 1. útg. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1963.
 • Íslensk orðabók. 3. útg. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda 2002.