dörslag

Fjöldinn allur af tökuorðum barst hingað til lands frá Danmörku á 18. og einkum 19. öld. Sum þeirra hafa horfið aftur en önnur lifa enn góðu lífi. Dörslag er eitt þeirra orða sem enn má finna í töluðu máli og það birtist sem flettiorð í Íslenskri orðabók (2002) þar sem merkingin er sögð 'gatasigti, vírsigti'. Dörslag er vissulega eins konar sigti, en öllum heimildarmönnum Orðabókarinnar ber saman um að eingöngu sé átt við emalerað sigti, en ekki vírsigtin sem nú eru helst notuð.

Vegna þess hve orðið sést sjaldan á prenti eru til af því ýmsar framburðarmyndir svo sem eins og dorslag eða doslag, duslag eða döslag án -r.

Orðið dörslag er þekkt um allt land, að minnsta kosti meðal þess fólks sem telst miðaldra eða eldra. Í Ritmálssafni Orðabókarinnar fundust aðeins þrjú dæmi um dörslag og var hið elsta þeirra úr matreiðslubók Mörtu Maríu Stephensen fyrir heldri manna konur. Athyglisvert við það dæmi er að auk danska tökuorðsins er notað íslenska orðið sáld sem Orðabókin á elst dæmi um úr Guðbrandsbiblíu frá 1584, en það þekkist einnig vel í fornu máli. Í matreiðslubókinni stendur: ,,er þetta mauk síad ígégnum dørslag edur sáld."

Danska orðið er fengið að láni úr lágþýsku dorchslach. Það orð er sett saman úr forsetningunni dorch sem merkir 'í gegnum', í háþýsku durch, og nafnorðinu slach, í háþýsku Schlag, sem leitt er af sögninni slagen s.s. 'slá'. Það sem sett er í dörslag er þá slegið í gegn.