dót

Allir þekkja orðið dót og flestir líklega í fleiri en einni merkingu. Orðið virðist ekki gamalt í málinu en samkvæmt Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru elstu dæmi frá því um miðja 19. öld. Það finnst ekki í orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld og ekki heldur í eldri orðabókum.  Það er notað um hluti, leikföng, samtíning, farangur og sitthvað fleira. Af heimild úr Hirði frá 1857 að dæma er dót notað um óværu:

  • og hafi fje drepizt þar, þá er víst engin önnur orsökin til þess, en óþrif, hafíslús og annað þess konar dót.

Jónas Hallgrímsson virðist notað orðið um eigur eða muni í dæminu:

  • þær eru geymdar með öðru dóti mínu uppi í Eyjafirði.

Ekki er annað að sjá en að dót sé notað um fólk í Bjarka 1898, fremur niðrandi eins og einnig kemur fram í yngri heimildum í Ritmálssafni:

  • með henni [þe: Vestu] fóru [ [...]] Helgi Jónsson jurtafræð. á leið til Hafnar, Guðlaug Arasen og eitthvað af ensku dóti.
  • Ég vil ekki leika nema með góðum leikurum. Þú ert vís til að tína saman eitthvurt bölvað dót.
  • lýsti hún yfir því, að fylgið hlyti að hrynja af bolsum, þessum vandræðalýð, þessu dóti.

Til var leikurinn ,,Allt mitt dót“ þegar Ólafur Davíðsson safnaði leikjalýsingum á síðari hluta 19. aldar. Þetta er einhvers konar pantleikur og getur ,,dótið“ verið nánast hvað sem er, fat, skór, lúsakambur eða annað sem þátttakendur höfðu við höndina.

Elsta heimild í Ritmálssafni um merkinguna ‛leikfang’ er úr ársritinu Hlín frá 1917:

  • Börnin fögnuðu sunnudeginum [...], en þá fengu þau oft að fara til kirkju, eða njóta sinna barnalegu leikja, ýmist með unglingum úti í góðu veðri, eða inni með dót sitt í ró og næði.

Dót barna í upphafi 20. aldar var ólíkt því sem börn leika með nú en merkingin hin sama, hlutir, munir af margvíslegu tagi sem hægt var að dunda sér við.

Ef flett er í dagblöðum frá síðustu áratugum á Tímarit.is má finna flestar þær merkingar sem hér hafa verið taldar. Algengt er að dót sé notað um það sem geymt er í skápum og bílskúrum, oft í sömu merkingu og drasl.

Sögnin að dóta merkir ‛dunda, dútla’. Ásgeir Blöndal Magnússon bendir á skyldleika nafnorðs og sagnar við önnur mál í Íslenskri orðsifjabók (1989:122). Í nýnorsku er til sögnin dota ‛dútla, smáhagga við’ og nafnorðið dot ‛dundari’. Hann telur dót vera tökuorð í íslensku úr einhverjum miðlágþýskum víxlmyndum við doond ‛starf, sýslan’. Því til stuðnings vísar hann á myndirnar dont, dund og dút, hin síðastnefnda líklegast víxlmynd við dót.

Maí 2012
Guðrún Kvaran