duggarabandsár

Vel er þekkt að einhver segi eitthvað í þessa veru: ,,Ég lét mér ekki allt fyrir brjósti brenna á mínum duggarabandsárum“ eða ,,Ég sletti oft úr klaufunum á mínum duggarabandsárum.“ Með duggarabandi er átt við gróft ullarband sem notað var í peysur og sokka. Elst dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr handriti frá 1670 þar sem stendur:

Sesselja spir, sistir myn, hvort ey viljer senda nockud duggara band meira edr minna ad lata þær priona.

Orðið duggaraband er sett saman úr duggari og band. Duggari var notað um fiskimann á skútu, einkum erlendri, og eru elstu  dæmi í Ritmálssafni frá síðasta þriðjungi 16. aldar. Í orðabók Johans Fritzner yfir forna  málið (1886:271) er heimild um duggara úr Norsku fornbréfasafni.  Orðið dugga var notað um seglskútu, en einnig um peysu úr grófu ullarbandi. Ásgeir Blöndal Magnússon (1989:134) telur orðið fengið að láni úr miðensku eða gamalli hollensku og vísar í enska og hollenska orðið dogger ‛skúta, skútukarl’ og dogge ‛fiskiskúta’ í miðlágþýsku og gamalli dönsku.

Samkvæmt Íslenskri orðabók (2002:237) er orðið duggarabandsár notað í merkingunni ‛æsku- eða unglingsár’. Elstu dæmi eru frá miðri 19. öld en orðið er væntanlega eldra í málinu.

vjer verðum nú á þessum duggarabandsárum, að ,,sníða oss stakk eptir vexti“.

á okkar duggarabandsárum, þegar Austurvöllur var eitt flag.

Fyrra dæmið vísar til samtímans og til einhvers sem er nýtt og í þróun, en síðara dæmið til einhvers sem er liðið fyrir nokkru. Önnur dæmi í Ritmálssafninu vísa flest til þess sem menn höfðu gert fyrir löngu á meðan þeir enn voru ungir, t.d.

Á duggarabandsárum mínum hringlaði eg í skrílnum, með því að kenna að dauðinn væri eilífur svefn.

Áhugavert dæmi er úr Brekkukotsannál Halldórs Laxness undir orðinu duggaraband. Þar stendur:

Hefur ,,gáfan“ forðað mér frá óþægindum sem ég held ég hefði hlotið að kalla yfir mig hvar sem ég sýndi á mér smettið undir það er sokkabandsár mín fóru að nálgast duggarabandið.

Þarna greinir Halldór á milli æsku- og unglingsára.

Samkvæmt Íslenskri orðabók (2002:1417) eru sokkabandsár ‛æskuár, unglingsár’ rétt eins og duggarabandsár. Af dæmum Orðabókar Háskólans um sokkabandsár að ráða virðist orðið notað á sama eða mjög svipaðan hátt og duggarabandsár. Þau eru elst frá síðari hluta 19. aldar en orðið hefur verið notað allt fram á þennan dag. Halldór Laxness skrifaði:

á mínum sokkabandsárum suðrí Evrópu þótti einginn frammúrmaður í bókmentum nema hann aðhyltist þá stefnu.  

Orðið sokkaband er í dæmum í Ritmálssafninu einungis notað um band til að halda uppi sokkum en það er einnig notað í máli manna um ullarband til að prjóna úr sokka.

Heimildir:

  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans (www.arnastofnun.is)
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, Orðabók Háskólans.
  • Íslensk orðabók. 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík, Edda.
  • Johan Fritzner. 1886. Ordbog over Det gamle norske Sprog. I. A-Hj. Kristiania, Den norske Forlagsforening.

 

Guðrún Kvaran
Október 2011