eldhúsdagur

Flestir kannast við orðið eldhúsdagsumræður og vita nokkurn veginn við hvað er átt, en færri vita ef til vill hvað átt er við með eldhúsdegi. Orðið eldhúsdagur hefur fleiri en eina merkingu. Það er notað um annadag í eldhúsi og er þá átt við að mikið sé um að vera, t.d. í sláturtíðinni þegar unnið er við að hreinsa og sauma vambir, brytja mör o.s.frv. Þessi merking er í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals merkt Vestfjörðum og er heimild hans úr einni af vasabókum Björns M. Ólsens frá lokum 19. aldar.

Í öðru lagi var orðið eldhúsdagur notað um það þegar menn vildu gera sér glaðan dag og hafa betra og ríkulegra í matinn en venja var. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Norðanfara frá 1862:

hugði hann sjer vísan góðan eldhúsdag, þegar farið væri að matreiða þau [þ.e. dýr].

Eldhúsdagur er þó í þessari merkingu einkum notaður í sambandinu að halda sér eldhúsdag en sú notkun heyrist mjög sjaldan núna. Í orðabókarhandriti Hallgríms Schevings frá 19. öld (Lbs. 283–285 4to) eru báðar þessar merkingar tilgreindar:

Þá mikið er eldað eða soðið. Vestanmál. Haldtu þér nú eldhússdag á morgun af þessum sauð. Norðanmál.

Vestanmál hjá Hallgrími merkir málfar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Síðari merkinguna hefur hann af Norðurlandi.

Í þriðja lagi þekkist að talað sé um að taka (sér) eða gera (sér) eldhúsdag og var sá dagur þá nýttur til þess að gera hreint í eldhúsinu, en einnig í yfirfærðri merkingu um tiltektir almennt, að ganga frá ýmsu sem dregist hafði að koma fyrir. Sú merking kemur ágætlega fram í frásögn af Guðmundi Árnasyni (Gvendi dúllara) í Ævisögu Árna prófasts Þórarinssonar (1969 I:28):

Hjálmar tók nú að færa það í tal við Guðmund, að þeir ættu að hreinsa þessa skildinga úr frakkanum og leggja þá í bankabókina. En Guðmundur hafði megnustu óbeit á slíkri yfirfærslu og vildi ekki láta sér skiljast, að bankaræfillinn væri tryggari geymslustaður en frakkinn. Þó fékk Hjálmar því seint og um síðir áorkað, að Guðmundur leyfði honum að gera eldhúsdag í frakkanum.

Af síðustu merkingunni er dregin sú yfirfærða notkun, sem tíðkast m.a. á Alþingi og dæmi eru um í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans þegar á 19. öld, en á þeim degi flytur forsætisráðherra eldhúsdagsræðu sína og fram fara sérstakar umræður í þinginu, eldhúsdagsumræður, þar sem farið er yfir stefnu ríkisstjórnar, fjármál og störf Alþingis.

Eitt elsta dæmið í Ritmálssafni er úr Alþingisrímum sem ortar voru á árunum 1899–1901:

Heyja frægir hamramman
hjörva slátt með sköllunum
,,eldhúsdaginn“ alræmdan;
ekki er fátt á pöllunum.

Frá svipuðum tíma er dæmi úr Þjóðviljanum unga:

[stjórnin] tekur sér svo eldhúsdag til að varpa þeim [þ.e. málunum] í gröfina.

Heimildir:
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • Sigfús Blöndal. 1920–1924. Íslensk-dönsk orðabók. Reykjavík.
  • Þórbergur Þórðarson.1969. Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar. Mál og menning, Reykjavík.

Guðrún Kvaran
október 2008