endemi (endimi)

Í Íslenskri orðabók (2002) segir m.a. um merkingu orðsins endemi: ,,e-ð dæmalaust, óheyrilegt; fáránlegt". Orðið er einkum notað í föstum orðasamböndum og upphrópunum auk þess sem eignarfallsmyndin endemis er notuð til áherslum með nafnorðum. Þetta sést af dæmum úr Ritmálssafn Orðabókar Háskólans:

 • ,,Heyr á endemi , hundheiðni Mahómets maður!`` mælti töframaðurinn.
 • ,,En sá endemis sóðaskapur``, nöldraði Steinn. 
 • Mér fanst eitthvað dularfullt við þennan endemis kött.
 • Verðlagning á bílum hér á landi er með slíkum endemum, að fáar þjóðir búa við slíkt ástand. 

Mynd orðsins er óræð en það mun vera afbökun úr orðinu eindæmi. Orðið er þó gamalt og kom fyrir þegar í fornu máli. Um það vitna dæmi í fornmálsorðabók Árnanefndar í Kaupmannahöfn (ONP) sem sýna jafnframt áþekka notkun orðsins og þá sem nú tíðkast (undir uppflettiorðinu eindǿmi).

 • þetta eru endimi mikil, enn er heill bátr ok svá þeir sjálfir.
 • Heyr a endemi, at ek munda Sveini fee til sætta gefa.

Heimildir


 • Ritmáls- og talmálssafn Orðabókar Háskólans.
 • Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon. Reykjavík: Orðabók Háskólans 1989.
 • Íslensk orðabók. 3. útgáfa. Ritstjóri Mörður Árnason. Reykjavík: Edda 2002.
 • ONP = Ordbog over det norrøne prosasprog. 3: de-em. Ritstjórar: Helle Degnbol o.fl. Kaupmannahöfn: Den arnamagnæanske kommission 2004.
 • Stóra orðabókin um íslenska málnotkun eftir Jón Hilmar Jónsson. Reykjavík: JPV 2005.
Ásta Svavarsdóttir
apríl 2003