endurlífgun

Orðið endurlífgun er ekki ýkja gamalt í málinu. Í merkingunni ‘lífgun úr (dauða)dái’ kemur það fyrst fyrir á fyrsta þriðjungi 19. aldar og síðan fram á 20. öld:

til endurlífgunar drukknaðra (19f OH)

Endurlífgun drukknaðra, skindauðra og bráðkvaddra (19m OH)

Um endurlífgun drukknaðra manna (20f OH)

Jafnframt kemur orðið fyrir í ýmsum samböndum um hvers konar endurnýjun og endurnýjungu:

… orðið til þeirrar endurlífgunar þjóðerni voru, sem konungurinn ætlaðist til (19m OH)

Slíkar stofnanir [þ.e. mennta-] þurfa nokkurs konar endurlífgunar við alltaf af öðru hvoru (19s OH)

Að styrjöld … mundi hafa vaxandi eftirspurn, endurlífgun framleiðslunnar og aukinn gróða í för með sér (20f OH)

Þessum rómantísku skáldum eigum við ekki aðeins endurlífgun tungunnar að þakka (20ms OH)

Ein merking enn, sem kynni jafnvel að vera elst ef marka má ritmálssafn Orðabókar Háskólans, þ.e. ‘endurnæring, hressing’, kemur fram í eftirfarandi dæmi:

Við viljum og fá ferskt kjöt keypt handa oss til endurlífgunar (18s OH)

Þessi merking kemur einnig fyrir hjá Jóni Ólafssyni úr Grunnavík, í orðabók hans undir orðinu lífga: endurlífgan. f. …, refectio, en refectio þýðir m.a. ‘hressing, endurnæring’. Þriðja dæmið um orðið endurlífgan frá 18. öld er í orðabók Björns Halldórssonar. Þar eru tvær merkingar orðsins tilgreindar, annars vegar ‘lífgun úr dái’ (lat. vivificatio, d. Oplivelse) og hins vegar ‘endurnæring, hressing’ (lat. recreatio, d. Vederkvægelse, Forfriskning). Þessi merking í orðinu endulífgun, -lífgan virðist nú horfin úr málinu.

Þess var getið hér í upphafi að orðið endurlífgun (-lífgan) væri ekki „ýkja gamalt“ í málinu. Þess má geta að um sagnorðið endurlífga eru hins vegar eldri heimildir. Það kemur þegar fyrir í fornu máli, í Heilagra manna sögum og Stjórn. Orð eins og endurlífgun eru iðulega dregin af samsvarandi sagnorðum, sagnleidd, og því er ekkert því til fyrirstöðu að endurlífgun geti verið eldra í málinu en núverandi orðasöfn sýna.

Heimildir

  • Björn Halldórsson. Lexicon-Islandico-Danicum … Khöfn 1814.
  • Jón Ólafsson úr Grunnavík. Lexicon Islandicum (AM 433 fol (uppskrift á seðlum í fórum Orðabókar Háskólans)
  • OH: Ritmálssafn Orðabókar Háskólans (á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Skammstafanir

  • d.: danska.
  • f.: femininum, kvenkyn
  • lat.: latína.
  • f, m, s: fyrsti, annar og síðasti þriðjungur aldar.

Gunnlaugur Ingólfsson
mars 2010

Fleiri orðapistlar