erlendis

Atviksorðið erlendis merkir samkvæmt Íslenskri orðabók (2002) 'í öðru landi, í útlöndum', þ.e.a.s. það er haft um dvöl á stað og er hliðstætt orðinu hérlendis sem merkir 'hér á landi'. Þetta sést á eftirfarandi dæmum sem sótt eru í Textasafn Orðabókar Háskólans:
 • Að hafa dvalizt þrjú ár erlendis er miklu fremur álitsauki.
 • Íslendingar búsettir erlendis kaupa í vaxandi mæli jarðir í stað þess að festa fjármagn í húsnæði.
 • Fjölmargir Íslendingar hafa á ferðalögum erlendis heimsótt glerverksmiðjur.
 • Fjallað er um helstu íþróttaviðburði heima og erlendis.
Í Íslenskri orðabók er einnig getið um aðra merkingu orðsins erlendis 'í annað land, til annars lands', þ.e.a.s. um hreyfingu til staðar. Þessi merking er auðkennd með tákninu "!?" en það þýðir "orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi" samkvæmt formála bókarinnar (sjá 2002: xiii). Þetta er enda orðnotkun sem iðulega er amast við.

Notkun orðsins erlendis með hreyfingarsögnum er þó ekki alveg ný af nálinni. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru þó nokkur dæmi frá ýmsum tímum um slíka notkun, yfirleitt með sögninni fara. Það elsta er frá 18. öld:
 • margir landar vorir, sem á þessum dögum fara erlendis, gjörast miklir ættlerar. (um 1750)
 • hann ásetti sér ad fara erlendis. (1841)
 • Eitt sinn fór kóngur erlendis. (Þjóðsögur Jóns Árnasonar)
 • Erlendur [ [...]] hvarf aftur erlendis sama haust. (1964)
 • 1 var felldur af félagsskrá vegna skulda, enda fluttur erlendis. (1969)
Heimildir
 • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
 • Textasafn Orðabókar Háskólans
 • Íslensk orðabók. 2002. 3. útg. Ritstj. Mörður Árnason. Edda. Reykjavík.

Ólöf Margrét Snorradóttir