fægiskófla - fægiskúffa

Fægiskófla eða fægiskúffa er lítil skófla sem ryki eða rusli er sópað á. Orðin eru fengin að láni úr dönsku: fejeskovl, fejeskuffe. Algengasta orðið í dönsku nú er þó fejeblad.

Elsta dæmi Oðabókarinnar um orðið fægiskúffa er úr auglýsingu í blaðinu Þjóðólfi frá lokum 19. aldar þar sem verið er að bjóða til sölu kústa og fægiskúffur. Orðabókin á hins vegar ekkert dæmi í ritmálssafni um fægiskóflu og ekkert dæmi fannst heldur við leit í textasafni. Bæði orðin eru þó vel þekkt í málinu og fengust allmörg dæmi um þau þegar spurst var fyrir um þau í þættinum um íslenskt mál í Ríkisútvarpinu.

Dæmi eru einnig um að kústurinn, sem notaður er til að sópa upp á fægiskúffuna, sé nefndur fægikústur eða stufkústur. Þessi orð eru bæði notuð um kústinn sem sópar ruslinu á fægiskúffuna og um léttan kúst sem notaður er til að þurrka burtu ryk af hillum og húsgögnum. Bæði orðin eru einnig fengin að láni úr dönsku.

Ekki hefur öllum líkað þessi dönskættuðu orð. Í ritinu Kvennafræðarinn eftir Elínu Briem er áhaldið nefnt sorpskúffa og nota margir það orð enn í dag. Önnur orð um áhaldið eru ruslaskúffa, saurskúffa, rykskúffa, sorpskófla og rykskófla. Um kústinn eru til orðin rykkústur og dustkústur í talmálssafni Orðabókarinnar.

Heimildir
  • Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans
  • Talmálssafn Orðabókar Háskólans.