feðgin

Orðið feðgin merkir 'faðir og dóttir/dætur'. Viðliðurinn -gin er hinn sami og er í orðunum mæðgin 'móðir og sonur/synir' og friðgin og -g- viðskeytið er enn fremur að finna í orðunum feðgar 'faðir og sonur/synir' og mæðgur 'móðir og dóttir/dætur' og reyndar einnig í orðinu systkin.

Réttilega hefur verið á það bent að merkingin 'faðir og dóttir' eigi ekki við í orðinu guðfeðgin. Guðfeðgin eru maður og kona sem viðstödd eru skírn barns og ábyrgjast kristilegt uppeldi þess, skírnarvottar (sjá OM). Barnið er guðdóttir eða guðsonur þessa fólks og það er foreldrar þess í trúarlegum skilningi, guðforeldrar. Orðið guðfeðgin kemur fyrir þegar í fornu máli og samband feðgina og barns var nefnt guðsifjar.

Foreldramerkingin í guðfeðgin skýrist af því að orðið feðgin merkti í fornu máli 'foreldrar'. T.d. segir svo í Maríu sögu:
  • Þessi kona var einberni sinna feðgina. Var faðir hennar og móðir oftnefndri kirkju ... tilheyrandi (Maríu saga, bls. 625)
og fleiri dæmi í fornum textum sýna glögglega að þessi er merking og notkun orðsins í fornu máli og reyndar langt fram eftir öldum (sjá Ritmálssafn Orðabókar Háskólans).

Orðið foreldrar, sem einnig kemur fyrir í fornu máli (forellri, forellrar), merkir hins vegar 'forfeður'. Einnig gat það merkt 'forveri, fyrirrennari (í stöðu eða embætti)' en foreldramerkingin kemur ekki fram fyrr en um og upp úr siðaskiptum.