fingur

Orðið saumakonufingur þekkja margir en ekki nota allir það í sömu merkingu. Sumir nota það um mjög fatta þumalfingur, fingur sem geta sveigst mjög aftur. Aðrir aftur á móti segja að konur, liprar við saumaskap, hafi saumakonufingur. Duglegar saumakonur eru líka sagðar með saumakonuhendur.

Karlmaður, sem laginn er við smíðar, er sagður með smiðsfingur, smíðafingur eða smiðshendur og góður píanóleikari hefur píanófingur. Góður læknir, einkum skurðlæknir, hefur læknisfingur eða læknishendur og sá sem er laginn við að búa um sár annarra hefur græðifingur. Sá sem ræktar garðinn sinn með árangri hefur græna fingur og sá sem er laginn við að hreinsa dún hefur dúnfingur. Sumir eiga erfitt með að láta eigur annarra í friði og gerast þeir stundum fingralangir.

Guðrún Kvaran
nóvember 2002