Tíu eru á þér tær og fingur ...

Allt, lifandi og dautt á sér eitthvert heiti. Fingurnir eiga sín heiti og sumir fleiri en eitt.

Ef byrjað er við greipina er þumalfingur fyrstur en hann er einnig nefndur þumall eða þumalputti. Næstur honum er vísifingur sem einnig hefur nöfnin sleikifingur og bendifingur. Þá kemur langatöng eða langastöng og við hlið hennar er baugfingur sem sumir nefna hringfingur eða græðifingur. Lestina rekur litlifingur eða litliputti.

Tærnar hafa ekki eins föst heiti og fingurnir. Helst er það stóratá sem á fleiri en eitt heiti. Hún er stundum nefnd þumaltá eða langatá. Minnsta táin er nefnd litlatá en tærnar á milli eiga sér engin sérstök samheiti.

Sums staðar á landinu, t.d. í Skagafjarðar- og Dalasýslum, þekkist að gefa tánum sérstök nöfn. Þau eru talin frá stórutá: Vigga, Háa-Þóra, Stutta-Píka, Litla-Gerður og Lilla og í Eyjafirði þekkjast annars vegar nöfnin: Dyrgja, Bauga, Geira, Búdda og Grýta en hins vegar Stóra-Jóa, Nagla-Þóra, Langa-Dóra, Stutta-Jóra og Litla-Lóa.

Guðrún Kvaran
júní 2002