fit

Nú um stundir er prjónaskapur mjög í tísku. Nýlega var ég spurð um nöfn á því að fitja upp og hvað væri átt við með fit.

Merking orðsins fit er tvíþætt þegar prjón á í hlut. Annars vegar er átt við sjálfa uppfitjunina, fyrsta prjóninn segja sumir. Hins vegar kalla margir slétta og brugðna kaflann á t.d. sokkum og vettlingum fit en sá kafli er einnig nefndur brugðningur, snúningur, stroff, stuðlaprjón og stuðull.

Orðið fit er einnig notað um húðsepa milli táa á sundfuglum (sundfit), afturhreifa á sel og þverþræði í uppistöðu í vef. Það á sér samsvaranir í grannmálunum. Í færeysku merkir fit 'sundfit, afturhreifi', í nýnorsku er merkingin 'skæklur (fóthlutar) á skinni eða húð; borði eða kantur á prjónadúk eða -flík; vefjarkantur ...' og í dönsku er fed, fid notað um vefjarhluta. Orðið er hugsanlega skylt fótur og fet og er upphafleg merking þess 'fótur eða neðsti hluti e-s' (Ásgeir Bl. Magnússon 1989:178).

Nokkur orð eru til um mismunandi gerðir af fit í söfnum Orðabókarinnar. Halldórufit er kennd við Halldóru Bjarnadóttur sem bæði kenndi nýja uppfitjun og að prjóna nýja gerð af hæl á sokkum, svokallaðan Halldóruhæl. Uppfitjunin mun hafa gefið vel eftir en ekki verið sterk. Önnur fit er hundafit. Flestum ber saman um að hún sé einföld og gjarnan notuð til að kenna börnum að prjóna sokk eða vettling. Sumir kalla hundafit frekar hænsnafit og enn aðrir skólafit eða húsgangsfit.

Sum nöfn á fit virðast staðbundin eins og t.d. breiðafit og skollafit sem dæmi eru um úr Vestur-Skaftafellssýslu og lykkjufit sem Orðabókin á heimildir um úr Skagafirði. Í 19. aldar heimildum er bæði talað um gullfit og silfurfit eftir heimildum Orðabókarinnar að dæma en þær sýna orðin ýmist í yfirfærðri merkingu eða án skýringa.

Dæmi úr ritmálssafni Orðabókar Háskólans
  • hún [::krítikin] er dável fitjuð upp, já, með gullfit og með sæmilegri affelling.
  • að fitja þær [::samgöngubæturnar] upp á gullfit og prjóna þær á allsherjarprjónavjel landsins.
  • að mér sýnist fjötur hafa af því nafn, að í honum eru fitjaðir saman hlekkirnir, svo sem prjónafit eður vefjarfit kvenna.
Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Ásgeir Blöndal Magnússon. 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.