að hafa marga fjöruna sopið

Merking og notkun
Stundum er sagt að einhver hafi marga fjöruna sopið og átt við það að hann sé margreyndur og hafi sigrast á mörgum erfiðleikum.
  • Ólafur Thors hafði marga fjöruna sopið í viðureign sinni við Barnaríkjastjórn um herstöðvar á Íslandi. ( Ritmálssafn OH )
  • Varði spinnur með sjóuðum götuspilurum sem hafa - af rámri röddu og áreynslulausu öryggi að dæma - marga fjöruna sopið í gegnum tíðina. (Mbl. 8. júní 2002)
  • En KR-stúlkur hafa marga fjöruna sopið og síðan staðið uppi sem sigurvegarar. (Mbl. 16. apríl 2002)
Aldur og uppruni
Í daglegu máli er þetta orðasamband notað í yfirfærðri merkingu. Líkingin er dregin af selkópum sem sjúga móður sína þegar fjara er og vaxa við hverja fjöru sem þeir drekka eða ,,súpa". Heimildir eru um notkun orðasambandsins allt frá 18. öld því það er í orðabók Björns Halldórssonar (d. 1794). Það er allalgengt í nútímamáli, t.d. eru fimmtán dæmi um það í gagnasafni Morgunblaðsins frá árinu 2002.

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Gagnasafn Morgunblaðsins ( http://safn.mbl.is )
  • Björn Halldórsson: Orðabók. Íslensk - latnesk - dönsk. (1814/1992)
  • Halldór Halldórsson: Íslenzkt orðtakasafn. (1991)
  • Íslensk orðabók. (tölvuútgáfa 2000)
  • Jón Friðjónsson: Mergur málsins. (1993)