fjölmúlavíl

Hvorugkynsorðið fjölmúlavíl merkir annars vegar 'fyrirhöfn' og hins vegar 'lítill, ómerkilegur hlutur'. Það virðist fyrst notað á prenti í bókum Halldórs Laxness samkvæmt dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans:
  • Kanski tekst mér með guðshjálp að búa til ógnlítið fjölmúlavíl fyrir vorið.
  • hver sem hafði einhverja meinloku í hausnum, [ [...]] þóttist skyldugur að rölta af sér þessa einkaóværu með því að gefa út af sér eitthvert fjölmúlavíl sem átti að heita skáldsaga.
  • Enn einusinni var ég orðinn að athlægi í höfuðborginni, að þessu sinni fyrir að dragast með slíkt fjölmúlavíl.
  • Nú fer konan að róta í bosinu til höfða sér og finnur þar loksins eitthvert fjölmulavíl og er hnýtt innaní skauta úr svörtu gljásilki.
Halldór leitaði víða fanga og skrifaði ýmislegt hjá sér í vasabækur. Í einni slíkri stendur:

Fjölmúlavíl eða -vél: Notað af ömmu minni um óskiljanleg apparöt eða teikningar. ,,Hvaða fjölmúlavél er nú þetta." Að fjölmúla. Hef heyrt notað. (Kr. Guðmundsd.)

Skammstöfunin Kr. Guðmundsd. á við Kristínu Guðmundsdóttur sem var góð vinkona Halldórs og heimildarmaður um margt. Halldór skrifaði grein í Þjóðviljann 16. apríl 1978 og kom þar fjölmúlavíli að:

Fjölmúlavíl nefndi amma mín undarlegar vélar í líkingu við ,,lánga staung uppúr lítilli grýtu" í teikningu Ásgríms Jónssonar við söguna Átján barna faðir í álfheimum.

Engin dæmi hef ég fundið um sögnina að fjölmúla sem höfð var eftir Kristínu Guðmundsdóttur en orðið fjölmúlavílari notaði Magnús Kjartansson í Tímariti Máls og menningar (1980:315):
  • Fyrir fjölmiðlatíð voru Íslendingar vel sendibréfsfærir, en nú góla fjölmúlavílarar hver upp í annan að enginn kunni að orða hugsun sína án þess að ,,sletta``.
Fjölmúlavíl er nefnt í Íslenskri orðabók 1983 og er þá merkt sem staðbundið mál. Sú merking er horfin í útgáfunni frá 2002.

Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Halldór Laxness. 1978. Dönsku vígstöðvarnar enn. Þjóðviljinn, 16. apríl, bls. 7. Edda, Reykjavík.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. 1983. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 2002. Edda, Reykjavík.