fjölskylda

Ýmis orð í fornu máli höfðu aðra merkingu en nú, merkingu sem stundum er horfin með öllu en er stundum varðveitt sem sjaldgæft gamalt mál. Eitt þessara orða er fjölskylda. Það er vel þekkt í fornu máli, einnig í myndunum fjölskyld og fjölskyldi, en hefur greinilega aðra merkingu en algengust er nú, þ.e. 'skylduverk, mikilvægt starf, erindi, annir (sem af slikum störfum leiðir)´. Þessi merking er einnig þekkt á síðari öldum sem sjá má af eftirfarandi dæmum úr Ritmálssafni Orðabókar Háskólans (ritháttur samræmdur nútímastafsetning):
  • fjölskylda embættiserinda í vísitasíunni féll inn sífelldlega (mið 17. öld)
  • svo var eg hlaðinn af fjölskyldu erindagerðanna á Alþingi að eg fékk ekki stundir til að skrifa yður (f. hl. 18. aldar)
  • það þú segir um embættis- og prívatbréfa fjölskyldu þína (f.hl. 19. aldar)
Orðið fjölskylda í hinni alkunnu nútímamerkingu 'foreldrar og börn, húsráðendur og börn þeirra o.s.frv.' virðist ekki koma fyrir fyrr en langt er liðið á 18. öld:
  • að taka að sér, ofan á fjölskyldu sína, uppgefna karla (s.hl. 18. aldar);
  • hann á að framfleyta heilli fjölskyldu (f.hl. 19. aldar);
  • fjölskylda teljast foreldrar og börn þeirra undir 18 ára aldri nema sýnt sé fram á að fleiri séu innan sömu fjölskyldu og hafi verið a.m.k. síðustu 2 ár (s.hl. 20. aldar).
Af þessum dæmum að ráða kemur hin alkunna nútímamerking ekki fram fyrr en á 18. öld og hin gamla lifir áfram við hlið hinnar enn um hríð. Hin nýja merking hefur æxlast af þætti hinnar eldri þar sem hin skyldubundnu störf og annir (um- og áhyggja) þeim bundnar taka til þeirra sem hinn önnum kafni á fyrir að sjá og störfin, fjölskyldan, fara að merkja hópinn.