flensa

Flensa leggur marga í rúmið með kvef, hita, höfuðverk og beinverki. Orðið flensa er stytting úr inflúensa sem einnig er notað. Það er tökuorð úr dönsku, influenza, en þangað er það komið úr ítölsku þar sem orðið influenza merkir áhrif eða smitun. Miðlatneska orðið influentia er leitt af latneska orðinu influens sem er lýsingarháttur nútíðar af influere sem merkir að streyma eða þrengjast inn í. Stjörnuspekingar fyrri alda töldu sjúkdóma stafa af áhrifum stjarnanna og er þessi nafngift komin þaðan.

Elstu dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans um orðið flensa eru frá lokum 19. aldar en dæmi um inflúensa koma fyrir frá því um miðja 19. öld.
  • Flensan kemur víða við.
  • Veikin var kölluð ,,flonsa`` eða ,,flunsa`` eða ,,flensa``, h[...] flonsan, flunsu-skrattinn eða flensu-déskotinn.
  • að joðáburður var tekinn inn til varnar flensu.
  • megn kvefsótt (inflúensa).
  • influenzan, þessi illkynjaða kvefsótt, hefir gagntekið nærri því hvert einasta heimili.
  • sagt er, að um 4/5 af eyjarskeggjum væri búnir að fá inflúenza.
  • Gegn inflúensu, sem helst gekk á vorin [ [...]] var helsta ráðið að sauma kamfórumola fastan við innri skyrtu neðan undir hóstinu.
Heimildir
  • Ritmálsskrá OH
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 3. útg. 2002. Ritstj. Mörður Árnason. Edda hf, Reykjavík.

Ólöf Margrét Snorradóttir
október 2003