flórgoði

Flórgoði er fugl af goðaætt sem gerir sér flothreiður eins og ýmsir af ættingjum hans. Kjörsvæði hans er tjarnir, vötn og síki. Hann er gljásvartur og úfinn um höfuð og um varptímann vælir hann langdregið og heldur ámátlega.

Flórgoðinn á sér mörg heiti í heimildum og í mæltu máli. Orðabókin á dæmi um flóaskítur frá því snemma á 18. öld og það heiti þekkti Jónas Hallgrímsson einnig. Í orðasafni, sem Sigurður Guðmundsson, skólameistari á Akureyri, skráði er nefnt kvenkynsorðið flóðaseta og hafði hann dæmi sitt úr Flóanum. Annað orð, sem Sigurður nefnir, er flóðaskítur og hafði hann það sömuleiðis úr Flóanum. Í talmálssafni Orðabókarinnar er dæmi úr Árnessýslu um flóðgoða.

Í Meðallandi þekkist heitið flóðflýta og í orðabók Sigfúsar Blöndals er flóðflýtur merkt Skaftafellssýslum. Þá er til heitið flóðseti sem virðist algengt í Austur-Landeyjum. Um myndina flóðskítur á Orðabókin elst dæmi úr Fuglakvæði sem talið er ort nálægt miðri 17. öld. Þar stendur: Hani, heingæs, súla / hafa jaðröku með, /urt og flóðskít fúla/ eg fekk þar líka séð. Flóðskítur kemur einnig fyrir í nafnaþulum aftan við Snorra-Eddu. Í orðabókarhandriti frá lokum 17. aldar er flóðskítur nefndur, og tekið er fram að hann sé af sumum nefndur flóðsmyrill.

Langalgengasta heitið er flórgoði og þekkist það um allt land. Elsta dæmi Orðabókarinnar er úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík frá 18. öld. Jónas Hallgrímsson þekkti styttu myndina flóra.

Sumir nefna flórgoðann sefönd og virðist það nafn þekkt um allt land. Öll heitin, önnur en flórgoði og sefönd, virðast í mæltu máli bundin Suðurlandi samkvæmt heimildum Orðabókarinnar.

Myndin flóðgoði er hugsanlega upprunalegri en flórgoði, -ð-ð- varð -r-ð- við frálíkingu.


Guðrún Kvaran
ágúst 2003