föðurmorðingi

Orðið föðurmorðingi er tökuorð úr dönsku og hefur ekkert með morð á föður að gera. Danska orðið er fadermorder en það er aftur fengið að láni í dönsku úr þýsku Vatermörder. Í sögulegu dönsku orðabókinni, Ordbog over det danske sprog (IV: 627), kemur fram að orðið þekkist þar í landi frá því um 1830 á sérstakri gerð flibba. Þeir voru stórir og háir og voru aðallega notaðir um miðja 19. öld. Líklegast hafa þeir þótt mjög óþægilegir, þótt glæsilegir væru, og nafnið af því dregið. Giskað er á að orðið hafi komið fram í þýsku við misskilning eða rangþýðingu á franska orðinu parasite ‘sníkjudýr’ sem ruglað hafi verið við franska orðið parricide ‘föðurmorðingi’ í eiginlegri merkingu. Þessir háu kragar voru á frönsku nefndir parasite þar sem matur vildi oft festast á framstæðum hornunum (Kluge 2002: 948). Sams konar háir kragar voru notaðir á Englandi en aðeins í þýsku kom fram merkingin ‘föðurmorðingi’. Þessi skýring á rangþýðingu er því nokkuð sennileg.

Elsta dæmi í söfnum Orðabókar Háskólans er úr blaðinu Austra frá 1884. Þar stendur: ,,Hann er ... með ,,föðurmorðingja“ (einskonar flippar)“ (bls. 62). Annað dæmi er úr Eimreiðinni frá 1895: ,,Hann hafði föðurmorðingja um hálsinn, er náði honum uppá eyrun — jeg hef aldrei sjeð annan eins flibba“ (bls. 132). Önnur dæmi Orðabókarinnar eru úr fjórum ritverka Halldórs Laxness. Í Brekkukotsannál (1957: 58) er manni t.d. lýst á þennan hátt: ,,frakkaklæddur maður með flauelskraga, hálfkagga, föðurmorðíngja og lonnéttur kom að hjólbörunum til afa míns á björtum sumardegi“.

Þegar tískan breyttist og flibbarnir viku fyrir öðrum gerðum hvarf orðið með þeim úr mæltu máli og lifir aðeins í blöðum og bókum.

Heimildir:
  • Kluge, Friedrich. 2002. Etymologisches Wörterbuch der deutschen Sprache. Bearbeitet von Elmar Seebold. 24., durchsehene und erweiterte Auflage. Berlin/New York: Walter de Gruyter.
  • Ordbog over det danske sprog. 1919 – . I – . Købebhavn: Det danske sprog- og litteraturselskab.
Guðrún Kvaran
júní 2008