foreldrar - foreldri

Orðið foreldrar, sem að formi er karlkynsorð í fleirtölu, merkir sem kunnugt er 'faðir og móðir' en hvorugkynsorðið foreldri er nú einkum notað þegar tala þarf um annaðhvort móður eða föður án þess að tiltaka hvort er; merkingin er með öðrum orðum 'móðir eða faðir'. Upprunalega eru þetta tvímyndir sama orðs sem komnar voru fram strax í fornu máli og eldri merking er 'forfeður, ætterni'; er hún merkt sem fornt eða úrelt mál í Íslenskri orðabók (2002) .

Óvenjulegt er að orð hafi mismunandi kyn í eintölu og fleirtölu eins og þróunin hefur orðið í þessu tilviki og í orðabókum eru þetta yfirleitt talin tvö uppflettiorð þótt form og merking séu nokkurn veginn þau sömu í báðum. Ástæða þessa misræmis í málnotkun er sú að karlkynsorðið, sem nú er nánast einrátt í fleirtölu, á sér enga eintölumynd. Þegar nauðsynlegt reynist að tala um annað foreldranna og ekki skiptir máli hvort þeirra er hefur því verið gripið til eintölu hvorugkynsorðsins frekar en að segja alltaf ,,faðir eða móðir".
  • ÞAÐ er án efa vandfundið það foreldri sem ekki hefur leitt hugann að því hvaða áhrif atvinnuþátttaka foreldra hefur á börnin. (Mbl. 1.2.2003)
  • sérhvert foreldri getur séð sjálft sig í þeim sporum, sem foreldrar þeirra barna, sem eiga við erfið veikindi að glíma en fá ekki viðeigandi meðferð, standa í. (Mbl. 21.2.2003)
Hins vegar er fleirtala af hvorugkynsorðinu fátíð í nútímamáli þótt henni bregði fyrir, ekki síst í sagnfræðilegum ritum eins og sjá má dæmi um í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.
  • Foreldri hans voru Jón hreppst. Runólfsson og Sigríður Jónsdóttir. (19. öld)
  • Er því foreldri séra Einars vel stætt atgervisfólk. (20. öld)

Heimildir
  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans
  • Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók
  • Íslensk orðabók. (tölvuútgáfa 2000)
  • Gagnasafn Morgunblaðsins