form - formi - formur

Orðið form er gamalt tökuorð í íslensku, nafnorðið form og sagnorðið forma (og formera) koma þegar fyrir í fornu máli; form kemur einkum fyrir í trúarlegum ritum, postula- og heilagra manna sögum og skyldum textum og hefur því væntanlega komið inn í málið þegar á 12. öld.

Orðið á rætur að rekja til latneska orðsins forma en er að líkindum komið um millilið, t.d. miðlágþýsku, í norræn mál. Orðið hefur þetta sama „form“ í öllum norrænum málum og reyndar öðrum germönskum málum, fornum og nýjum, einnig, þ.e. dönsku form, sænsku form, þýsku Form (kvk.), ensku form.

Í forníslensku hefur orðið einar þrjár merkingar (sjá Fritzner I, 456): ‘ásýnd, útlit; regla; líkneski’: sæmiligt form guðs móður segir á einum stað í Maríu sögu. Í aldanna rás hefur orðið form bætt við sig merkingar- og notkunartilbrigðum eins og ráða má af ríkulegu dæmasafni Ritmálssafns Orðabókar Háskólans og glögglega kemur fram í orðabókum um nútímamál (sjá t.d. Íslenska orðabók 1983: 232; 2002: 368). Auk þeirra merkinga sem þegar koma fyrir í fornu máli er orðið nú notað um ‘byggingu ritverks að því er varðar niðurröðun atriða og mállegan búning; eyðublað; mót til að baka í brauð og kökur’, enn fremur ‘líkamlegt ástand með tilliti til þjálfunar’: vera í góðu/lélegu formi.

En orðið hefur fleiri myndir að fornu og nýju. Frá 15. öld og fram á hina 18. kemur fyrir í heimildum kk.-myndin formi ‘lespúlt með hirslu’ í kirkjum og skólum. Einnig er kk.-myndin notuð í 19. aldar texta í sömu merkingu og ‘formsatriði’:

  • þeir héngu þá í þessum dauðu formum, því formarnir eru dauðir án sannleika, eins og líkaminn án andar (Ármann á Alþingi III, 167).

Á síðari öldum kemur enn fremur fyrir kk.-myndin formur. Hún er t.d. notuð í sambandinu formur og fyrirmynd, þ.e. í merkingunni ‘fordæmi, ágæti; fyrirkomulag, tilhögun’. En þegar fram í sækir er hún svo til eingöngu notuð í merkingunni ‘mót til að steypa eða baka í’ og þá einkum ‘köku- og brauðmót’ annars vegar og ‘mót til að steypa í kerti’ hins vegar. Þessi mynd, formur, um brauð- og kökumót hefur verið vel þekkt í mæltu máli víða um land til skamms tíma.

Heimildir

  • Ármann á Alþingi I-IV. Kaupmannahöfn 1829-1832
  • Fritzner, Johan. 1886. Ordbog over det gamle norske Sprog. Første Bind. Kristiania: Den norske Forlagsforening.
  • Íslensk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Önnur útgáfa, aukin og bætt. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1983.
  • Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. Reykjavík: Edda 2002.                                                                                                                         


Gunnlaugur Ingólfsson
september 2011