láta fótinn fæða sig

Orðið fótur er notað í fjölmörgum merkingum eins og kunnugt er. Það er ekki einungis haft um líkamshluta, heldur og um hvers konar fyrirbæri önnur í umhverfinu, lík og ólík fæti, áþreifanleg og óeiginleg. Þá er ógetið aragrúa orðasambanda, orðatiltækja og orðskviða, þar sem orðið fótur er lykilorð. Það væri að æra óstöðugan að telja upp dæmi þessa, ekki þarf annað en að opna algengar orðabækur, t.d. orðabók Menningarsjóðs eða orðtakasöfn eins og Merg málsins eftir Jón G. Friðjónsson eða Íslenzkt orðtakasafn eftir Halldór Halldórsson til að fá nokkra hugmynd um þetta.

Eitt þeirra orðatiltækja með orðinu fótur sem lítt hefur komist á bækur, orðabækur og orðtakasöfn, er orðasambandið láta fótinn fæða sig. Engin gömul dæmi er um þetta að finna í söfnum Orðabókar Háskólans, en þó er þar eitt dæmi úr héraðsritinu Goðasteini frá árinu 1986 (bls. 21). Enn fremur kemur orðalagið fyrir þegar í fyrstu útgáfu orðabókar Menningarsjóðs (1963) í myndinni láta fætur fæða sig og með merkingarskýringunni ‘ganga milli góðbúanna’.

Fyrir rúmum aldarfjórðungi eða svo var þetta orðatiltæki, að láta fótinn fæða sig, á dagskrá í útvarpsþættinum Íslenskt mál. Þá kom það fram að talshátturinn var þekktur víða um land, en einkum þó á Austurlandi. Dæmi um þetta bárust Orðabókinni úr öllum landshlutum nema Vestfjarðakjálkanum. Nokkrir heimildarmenn á Suðurlandi og Vesturlandi (í Borgarfirði) könnuðust við þetta, svo og heimildarmenn á austanverðu Norðurlandi, einkum úr Skagafirði og Þingeyjarsýslum. En eins og áður sagði virtist þetta einkar vel þekkt á Austurlandi, frá norðanverðri Norður-Múlasýslu, um Fljótsdalshérað og Austfirði allt austur í Austur-Skaftafellssýslu.

Almenn merking í orðasambandinu var sú, ‘að fara milli bæja og þiggja góðgerðir’ (‘ganga milli góðbúanna’). Aðrir heimildarmenn kváðu fastar að orði, að láta fótinn fæða sig væri ‘að hafa ofan af fyrir sér, fæða sig, með því að vera á faraldsfæti’, og enn aðrir höfðu þetta beinlínis um flakk, eins og heimildarkona af Borgarfirði eystra sagði í bréfi til Orðabókarinnar: „að láta fótinn fæða sig var sagt um umrenninga.“

Heimildir

  • Goðasteinn. Tímarit um menningarmál. Selfoss 1986.
  • Halldór Halldórsson. Íslenzkt orðtakasafn. 3. Útgáfa aukin og endurskoðuð. Reykjavík: Almenna bókafélagið 1991.
  • Jón G. Friðjónsson. Mergur málsins — íslensk orðatiltæki. Uppruni, saga og notkun. Mál og menning 2006.
  • Orðabók Menningarsjóðs: Íslenzk orðabók handa skólum og almenningi. Ritstjóri: Árni Böðvarsson. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs 1963.

Gunnlaugur Ingólfsson
júní 2009

Fleiri orðapistlar