frábær

Ekki er óalgengt að orð breyti um merkingu eða fái viðbótarmerkingu við þá sem upphaflega fylgdi orðinu. Lýsingarorðið frábærr þekktist þegar í fornu máli um það sem ber af öðru. Í fornmálsorðabók Johans Fritzners er birt þetta dæmi úr Fornmannasögum: ,,er hann frábærr öðrum mönnum bæði um fljótleik ok fagrleik“ (bls. 472). Í íslensk-latnesk-danskri orðabók Björns Halldórssonar, sem gefin var út 1814, er gefin skýringin 'non vulgaris, ikke almindelig'. Í íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndal (1920–1924) er gefin danska skýringin 'fortrinlig, udmærket'. Orðið er mikið notað í daglegu máli um nánast hvað sem er, t.d. fólk, mat, kvikmyndir, tónlist og bíla og þá um einhvern sem er afar góður í einhverju, t.d. frábær íþróttamaður, eða eitthvað sem er afar gott en þarf ekki endilega að bera af öðru, t.d. frábær réttur, frábært lag, frábær texti.

Ef dæmi eru skoðuð í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans virðist merkingin 'sem ber af öðrum' koma fram í elstu dæmunum:

  • búandi leiguliði, átti frábærar dætur margar.
  • Hann hafði verið barna frábærastur að viti.

Í bréfi til Jóns Sigurðssonar frá 1844 er aftur á móti þessi setning:

  • Máttleysið, sem þessari sótt fylgdi, var frábært.

Annað dæmi úr Ritmálsskrá er:

  • leið eigi á löngu áður en Persar tóku að ofsækja með frábærri grimmd hina kristnu í landi þeirra

Þarna er merkingin önnur, eiginlega eitthvað sem er sjaldgæft, óvenjulegt. Mér var bent á 17. aldar dæmi um barn sem fundist hafði drukknað ,,og var það frábært tilfelli“ stóð í textanum en heimildarmanni hafði láðst að skrá heimildina hjá sér. Þessi merking virðist alveg hafa horfið úr málinu aftur fyrir rúmri öld. Eina skýringin í Íslenskri orðabók (2002) er 'ágætur, afar snjall'.