framvinda

Svipmynd úr Íslensku orðaneti

Framvinda tímans er oft áleitið umhugsunarefni, ekki síst við áramót. Að þessu merkilega fyrirbæri lýtur margvíslegt orðafar sem gagnlegt getur verið að virða fyrir sér. En sjálft orðið framvinda er líka athyglisvert frá orðfræðilegu sjónarmiði.

Orðið framvinda er sýnilega myndað af sögninni vinda í sambandinu e-u vindur fram og þiggur merkingu sína af því. Sagnarsambandið kemur fram í ritmálssafni Orðabókar Háskólans snemma á 19. öld en kann vitaskuld að vera nokkru eldra. Nafnorðið á sér hins vegar styttri sögu og um leið skýrara upphaf því það virðist fyrst kynnt á prenti í grein í Skírni árið 1907 og þá sem nýyrði frá hendi greinarhöfundar. Höfundurinn er dr. Helgi Pjeturss og greinin hefur yfirskriftina Upptök mannkynsins. Þar nefnir Helgi rótgróna trú manna á það sem hann kallar óbreytileik tegundanna og hversu erfitt sé að gera sér grein fyrir þeirri þróun sem hefur mótað þær á löngum tíma. Þeirri umfjöllun tengist svo eftirfarandi athugasemd:

Þeir sem fyrstir réðu í þennan örðuga sannleika voru forngrískir spekingar. Og það var eigi einungis þessi eini þáttur þess er vér nefnum breytiþróun (evolution; framvinda væri ef til vill skárra; það segir ekki of mikið eins og breytiþróun). (Skírnir 1907, bls. 363)

Ekki verður betur séð en orðið komi hér beint úr smiðju Helga og er reyndar varla fullkomnuð orðmyndun af orðalaginu að dæma. Hvatinn að mynduninni er gagnrýnið mat höfundar á öðru nýyrði sem þá hafði nýlega komið fram, orðinu breytiþróun. Svo vill til að um uppruna þess og höfund er einnig varðveittur skýr vitnisburður. Í blaðinu Öldin, sem gefið var út í Winnipeg, skrifar ritstjórinn Jón Ólafsson árið 1893 grein um kenningu Darwins, sem hann kallar breytiþróunarkenninguna. Þar lýsir hann því hvernig Darwin sannfærðist um:

að allar núlifandi dýra og jurta tegundir væru afkomendr annara tegunda, er nú væru flestar útdauðar; en að tegundir þær, er nú lifa, hefðu tekið breytingum, sem síðan hefðu smá-þróazt,* og af því kæmi sú meiri eða minni líking, sem væri milli útdauðu tegundanna og inna lifendu tegunda. (Öldin 1893, bls. 58)

Við orðmyndina þróazt er vísað í neðanmálsgrein með svofelldri athugasemd, og á eftir fer fangamark höfundar, J.Ó.:

Af því dreg ég orðið „breytiþróun,“ sem er nýgervingr, er ég hefi smíðað yfir evolution.

Orðið breytiþróun virðist annars vera ráðandi heiti í skrifum manna um þróun lífsins og þróunarkenninguna nokkuð fram eftir 20. öldinni. En notkun þess dofnar smátt og smátt og nú má orðið heita horfið úr málinu.

Nýyrðið framvinda hefur á hinn bóginn fest sig rækilega í sessi. Fyrst í stað var notkun þess fyrst og fremst tengd því hlutverki sem því var ætlað í upphafi, ekki síst í skrifum Helga Pjeturss sjálfs sem m.a. notar heitið framvindukenning um kenningu Darwins. En orðið fær fljótt almennari merkingu og er nú löngu samgróið almennum orðaforða.

Þriðja orðið á þessu merkingarsviði sem kemur fram á sama tímabili og hin tvö er orðið framþróun. Notkun þess virðist framan af einnig tengd umfjöllun um þróunarkenninguna en orðið fær síðar fremur heimspekilega skírskotun auk almennrar merkingar sem enn lifir góðu lífi. Nýmyndun Jóns Ólafssonar sem fyrr var getið skýrist að nokkru leyti af athugasemd sem hann gerir um þetta orð í Skuld árið 1882. Þar býsnast Jón yfir orðfæri í Þjóðólfi og rekur ýmis dæmi mái sínu til stuðnings og segir m.a.:

Af torráðnu myrkviðri vil jeg að eins geta um „framþróun karaktersins“; ´framþróun‘ er rangt hugsað, eins og til væri nokkur ´afturþróun‘ (sem á þjóðólfsku hjeti ´tilbakaþróun‘), nei, orðið ´þróun‘ felur sjálft í sjer ´fram‘sóknina: þróunin getur aldrei orðið aftur á bak. (Skuld 1882, bls.74-75)

Tilurð og saga þessara orða er athyglisvert dæmi um það hvernig ný þekking og nýr skilningur á lífinu og tilverunni hrærði við íslenskri orðmyndun á umbrotatíma og skilaði málinu nýjum orðum sem málnotendur njóta enn góðs af.

Frá orðinu framvinda má beina sjónum að hugtakinu sem það vísar til og virða fyrir sér orð og orðasambönd sem að því lúta. Í Íslensku orðaneti liggur leiðin að þeim um orð, orðastreng eða orðasamband. Hér er tekið dæmi af flettunni „<þessu> vindur fram“. Þar koma fram flokkaðar upplýsingar um ólík merkingarvensl flettunnar:

  • stóra heild sambanda sem eru hneppt saman sem hugtak undir lýsandi fyrirsögn, hér " <þessu> vindur fram ". Orðasamböndin birtast í stafrófsröð en þeim má endurraða með því að smella á rofann "Sýna setningargerð". Setningargerðin endurspeglar að nokkru leyti náinn merkingarskyldleika sambandanna.
  • skyld hugtök undir viðeigandi fyrirsögn, t.d. "ná árangri", "tíminn er að hlaupa frá <mér>", "<málið> kemst á rekspöl" o.fl. Ef smellt er á eitthvert hugtakið birtast flettur á því merkingarsviði.

Vefslóð Íslensks orðanets er www.ordanet.is.

Heimildir

  • Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.
  • www.timarit.is

Jón Hilmar Jónsson og Þórdís Úlfarsdóttir
janúar 2010